Or­skřringar HIV.IS

Orðskýringar HIV.IS
 


DNA - deoxýríbósakjarnsýra (DKS á íslensku) – erfðaefni allra lifandi vera (nema RNA veira svo sem HIV veirunnar). DNA er tvístrendur, hringstigalaga sameindakeðja sem finnst í öllum frumum. Hún inniheldur nauðsynlegar upplýsingar fyrir frumur til að mynda prótín en það eru sameindir sem gera frumum kleift að fjölga sér og sinna ýmis konar starfsemi.

Veira – örvera úr erfðaefnisbroti (RNA eða DNA) umlukin prótínkápu. Til að fjölga sér þarf veira að smita frumu og skipa gangverki hennar að framleiða nýjar veirur.

Alnæmisveiran (HIV - Human Immunodeficiency Virus) – orsakavaldur alnæmis (AIDS).

Stofn – ein gerð HIV. HIV veiran er mjög misleit – engir tveir einangrar (isolates) eru nákvæmlega eins. Þegar HIV veira er einangruð frá einstaklingi og skoðuð á rannsóknarstofu fær hún sitt einkennisheiti eða stofnheiti (t.d. MN, LAI)

Alnæmi (AIDS - Acquired Immunodeficiency Syndrome) – lokastig HIV sjúkdómsins sem einkennist af hrakandi ónæmiskerfi og næmleika fyrir fjölda tækifærissýkinga og krabbameina.

Gagnumritunarensím (reverse transcriptase) – ensímið sem HIV og aðrar sambærilegar veirur búa til og gerir þeim kleift að mynda DNA úr eigið RNA. 

RNA - ríbósakjarnsýra (RKS) – einstrend sameind með svipaða efnauppbyggingu og DNA. RNA er einasta erfðaefni retróveira (eins og HIV) og milliliður í prótínmyndun allra lifandi fruma.

Mótefnisvaki (antigen) – hvert það efni sem ónæmiskerfið skynjar sem utanaðkomandi. Smitandi sjúkdómsvakar eru á sýklum,svo sem bakteríum eða veirum.

Veirumagn (viral load) – mælieining HIV í blóði.

T-fruma – hvítblóðkornsgerð sem gegnir veigamiklu hlutverki í ónæmiskerfinu og er lykillinn að aðlögunarónæmi, því kerfi sem klæðskerasníður ónæmisviðbrögð líkamans að ákveðnum sýklum. T-frumurnar eru eins og hermenn sem leita uppi og tortíma innrásaraðilum.

B-fruma - hvítblóðkornsgerð og einkum eitilfrumugerð. Margar B-frumur þroskast í svokallaðar plasmafrumur, sem mynda mótefni (prótín) til að verjast sýkingar, meðan aðrar verða að B-minnisfrumum.

CD (skammstöfun á „cluster of differentiation“) -  vísar til sameinda á yfirborði ónæmisfruma. CD merkingar eru notaðar til að bera kennsl á þroskastig ónæmisfruma, til dæmis CD4+ T-fruma.

CD4+ T-frumur - hvítblóðkorn sem útfæra ónæmisviðbrögð og gefa öðrum ónæmisfrumum merki um að sinna sérskyldum sínum. Þær eru líka kallaðar T-hjálparfrumur og drepast eða verða óstarfhæfar við HIV smit.

CD4+ - prótín á yfirborði sumra T-fruma og annarra fruma (t.d. átfruma, Langerhans fruma, fylgdarfruma). HIV ræðst á frumur með því að festast á CD4+ viðtaka þeirra.

CD8+ T-frumur – hvítblóðkorn sem drepa frumur sýktar af HIV eða öðrum veirum, eða krabbameinsbreyttar frumur. Þau seyta einnig leysanlegum sameindum sem bæla niður HIV veiruna án þess að drepa beinlínis sýktar frumur.

T-hjálparfrumur – T-eitilfruma með CD4+ merkiprótín á yfirborðinu. T-hjálparfrumur eru aðal stjórnfrumur ónæmiskerfisins og stýra ýmis konar starfsemi, svo sem að stöðva eða setja í gang mótefnamyndun. Þær eru megin skotmark HIV sýkingar. (Sjá CD4+ T-frumur.)

Retróveira – HIV og aðrar veirur sem bera erfðaefni sitt í formi RNA frekar en DNA. Þessar veirur innihalda einnig gagnumritunarensím (reverse transcriptase) sem umritar RNA í DNA. Þetta er öfugt við það sem gerist venjulega í dýrum og plöntum en þar umritast DNA í RNA.

Samrunatálmar (fusion inhibitors) – er tegund vírusvarnarefna sem bindast gp41 huluprótíninu og hindra þær formbreytingar sem þurfa að eiga sér stað til að veiran geta skeyst saman við CD4+ hýsilfrumuna. Ef veiran kemst ekki gegnum frumuhimnuna til að smita hýsilfrumuna getur engin HIV afritun átt sér stað í henni.

NNRTI (Non-nucleoside reverse transcriptase inhibitors) – eru gagnumritunartálmar úr öðru en kirnisleifum. Þetta eru efni af ólíkri byggingu sem bindast gagnumritunarhvarfstöð HIV veirunnar. Þetta eru ókappgjarnir ensímtálmar þannig að veiruvarnaráhrif þeirra er samvirk öðrum veiruvarnarefnum.

NRTI (Nucleoside reverse transcriptase inhibitors) - eru gagnumritunartálmar úr umbreyttum, náttúrulegum kirnisleifum. Efnin tálma afritun retróveira með því að trufla starfsemi gagnumritunarensímsins. Hinar sviplíku kirnisleifar gera að verkum að forveiruerfðakeðjan verður ófullburða. 

Hvítukljúfstálmi (PI - protease inhibitor) – ein gerð HIV lyfja sem tálma virkni hvítukljúfsensíma og trufla veiruafritun. Hvítukljúfstálmar koma í veg fyrir sundrun HIV forprótína (precursor proteins) í virk prótín en ferlið á sér stað við HIV afritun.

Hvítukljúfur (protease) – HIV ensím sem sundrar stærri HIV prótín í smærri sem þarf við samsetningu smitveiru.

Veiruvarnarmeðferð (Antiretroviral Therapy (ART)) – meðferð sem bælir eða stöðvar retróveiru, svo sem HIV veiruna sem veldur alnæmi. Retróveira ber erfðaefni sitt í formi RNA frekar en DNA þannig að upplýsingar þarf að umrita „öfugt“  - úr RNA í DNA.

Mónómeðferð – þegar aðeins eitt lyf eða ein meðferð er notuð.

Hávirk veiruvarnarmeðferð (Highly Active Antiretroviral Therapy (HAART)) – meðferð þar sem mjög  öflug lyfjablanda er notuð til að hamla framgang alnæmisveirunnar.

Sammeðferð (Combination therapy) – þegar tveim eða fleiri lyfjum eða meðferðum er beitt saman til að hámarka árangur gegn HIV smiti og/eða alnæmi. Sammeðferð hefur borið meiri árangur en mónómeðferð við a minnka veirumagn. Dæmi um sammeðferð væri tvö skyld kirnisleifalyf og annaðhvort PI eða NNRTI ensímtálmi.

Lyfjaþol – geta baktería og annarra örvera til að þola lyf sem þau þoldu ekki áður (og ýmist hamlaði þeim eða drap alveg).

Þol – minnkuð næmi sýkils við vissu lyfi. Þol er jafnan talið myndast vegna stökkbreytingar. Í tilfelli HIV geta stökkbreytingar breytt byggingu veiruensíma og prótína þannig að veiruvarnarlyf geti ekki lengur bundist þeim eins vel og áður. Þol sem uppgötvast með því að skoða arfgerð sýkils til að greina stökkbreytingar, er veita minnkaða næmi, kallast arfgerðarþol (genotypic resistance). Þol sem finnst með því að rækta sýkla á rannsóknarstofu í návist lyfs kallast svipgerðarþol (phenotypic resistance).

Tækifærissýkingar – veikindi af völdum örveru sem koma ekki upp í manneskju með eðlilegt ónæmiskerfi. Fólk, sem er langveikt af HIV, getur fengið tækifærissýkingar í lungu, heila, augu og önnur líffæri.

Kaposi sarkmein – krabbameinstegund sem einkennist af afbrigðilegum æðavexti og verður að fjólubláum eða brúnum sárum.

Langtímastöðnun (Long-term nonprogressor) – hugtak sem er notað um þá er hafa verið með HIV smit í minnst 7 til 12 ár (ólíkir höfundar styðjast við ólík tímabil) og hafa stöðugt CD4+ T-frumugildi með yfir 600 frumur á hvern rúmmillilítra blóðs, enga HIV tengda sjúkdóma og ekki verið í neinni veiruvarnarmeðferð áður.

Eitilfrumuæxlunarpróf (Lymphocyte Proliferation Assays (LPA)) – próf til að mæla minnisgetu CD4+ fruma (svokallaðra T-minnisfruma) gagnvart mótefnavökum eða örverum, svo sem HIV.

Eitilfruma – fjölbreytt gerð hvítblóðkorna (hver gegnir ólíku hlutverki) sem bera ábyrgð á ónæmissvörun. Til eru tvær megingerðir: B-frumur (sem sjá um myndun mótefna) og T-frumur (sem samhæfa öll ónæmisviðbrögð og gegna sérhæfðu starfi, svo sem að tortíma sýklasmituðum frumum). 

Eitlaæxli – æxli í eitlavef. Greining með vefjasýnatöku. Meðhöndlun með efnameðferð, geislun, uppskurði eða lyfjum, allt eftir aldri sjúklings og æxlagerð.

Átfruma (macrophage) – stór ónæmisfruma sem gleypir og útrýmir aðskotaefnum. Átfrumur örva aðrar ónæmisfrumur með því að færa þeim sýklabrot. Átfrumur geta hýst mikið magn HIV veira án þess að drepast og geta því þjónað sem veirugeymar.

Staðgenglavísar – afbrigður (kvarðar) sem fylgst er með í klínískum tilraunum þegar ekki er hægt að rannsaka frumafbrigðuna á þægilegan hátt. Tveir algengir staðgenglavísar í HIV rannsóknum eru CD4+ T-frumugildi og mælanlegt plasma HIV RNA (veirumagn).

Lyfleysa (placebo) – er óvirkt efni sem sumum rannsóknarþátttakendum er gefið meðan aðrir fá rannsóknarlyfið (t.d. bóluefni). Lyfleysur eru notaðar til samanburðar við rannsókn á virkni lyfs.

Fyrsti rannsóknaráfangi (phase I trial) – nýtt rannsóknarlyf innleitt til notkunar á mönnum. Rannsóknirnar eiga að meta efnafræðileg og lyfjafræðileg áhrif lyfs í mönnum, aukaverkanir samhliða aukinni skammtastærð og, ef mögulegt er, snemmbær ummerki um virkni.

Annar rannsóknaráfangi (phase II trial) – stýrðar, klínískar rannsóknir til að meta virkni lyfs, einkanlega í sjúklingum með sjúkdóminn sem verið er að rannsaka og til að ákvarða skammtímaáhrif og áhættu af lyfinu.

Þriðji rannsóknaráfangi (phase III trial) – stór, stýrð rannsókn til að afla gagna um virkni og öryggi lyfs til að meta heildar gagnsemi og áhættu þess og til að útbúa fullnægjandi leiðbeiningar fyrir lækna.

Samskiptareglur (protocol) – ítarleg áætlun klínískrar rannsóknar þar sem fram kemur hverjar forsendur hennar eru, tilgangur, aðferðafræði (svo sem skammtastærðir, stjórnleiðir, tímalengd, æskileg viðmið) og aðrir rannsóknarþættir.

Data and Safety Monitoring Board (DSMB) – er óháð eftirlitsnefnd skipuð sjálfstæðum sérfræðingum í klínískum rannsóknum sem yfirfara rannsóknargögn til að ganga úr skugga um að þátttakendur séu ekki í óþarfri hættu. Hefur líka eftirlit með þeim sem taka lyfin sem eru til rannsóknar og þeim sem fá lyfleysu.

Verkun (efficacy) – það hversu langt ákveðið inngrip, verklag, meðhöndlun eða þjónusta nær að skapa gagnlega niðurstöðu við fullkomnar aðstæður.

Endastöð (endpoint) – fyrir fram ákveðin skilyrði sem segja til um hvort rannsóknarmeðferð hafi náð tilætluðum árangri. Klínískar rannsóknir hafa yfirleitt fyrri endastöð og síðari endastöð.

CCR5 – eru yfirborðssameindir frumu en þeirra er þörf ásamt frumviðtaka, CD4+ sameindinni, til að geta skeyst saman við frumuhimnu ónæmisfruma. Rannsakendur hafa komist að raun um að þeir HIV stofnar, sem oftast smitast manna á milli, þurfa bæði CCR5 sameindina og CD4+ sameindina til að komast inn í frumuna. Auka þess að leika hlutverk við sameindaskeytingu er CCR5 viðtaki fyrir efnakín (chemokines), ónæmisörvandi sameindir sem vitað er að bæla HIV sýkingu fruma.

Efnakín (chemokines) – eitt fjölda tálbeituprótína sem uppgötvuðust fyrst þegar þau löðuðu að sér hvítblóðkorn. Efnakín koma víða við þegar bráða- og langvarandi bólgur, smitsjúkdómar og krabbamein eiga í hlut. Fyrsta efnakínið, sem fannst, heitir interleukin-8 (IL-8). Önnur efnakín eru blóðflöguþáttur 4 (platelet factor 4), grunnflöguprótin (platelet basic protein), sortuæxlisvaxtarprótín (melanoma growth stimulatory protein), átfrumuþrotuprótín 2 (macrophage inflammatory protein 2), RANTES, MIP-1α og MIP-1β.

Klaðar (clades) – hópur skyldra HIV einangra (isolates) sem flokkast eftir sameiginlegum genaeinkennum. Til eru tveir meginflokkar HIV-1 einangra – M og O. Í M-flokki eru 8 klaðar, A til H.

Frumukín (cytokines) – hópur leysanlegra hormónaprótína sem hvítblóðkorn mynda og gegna sendlahlutverki milli fruma. Frumukín stýra styrkleik og lengd ónæmisviðbragða og nýtast við frumusamskipti.

Cýtómegalóveira (CMV) er herpesveirutegund sem greinist í 50-85% fullorðinna (í Bandaríkjunum) fyrir fertugsaldur. Hún er jafnframt algengasta veiran sem smitast í fóstur fyrir fæðingu. Fólk með veirusýkingu fær áþekk einkenni og við einkirningasótt, þ.e. langvarandi sótthita og væga lifrarbólgu. Veiran lifir áfram í líkama sjúklings eftir smit og er liggur yfirleitt í dvala til æviloka. Veikin tekur sig sjaldan upp nema ónæmiskerfi viðkomandi bælist vegna lyfja eða sjúkdóms. CMV veiki er áhyggjuefni vegna hættu á fóstursmiti og að fullorðnir smiti börn sem þeir vinna við. Aðrir áhættuhópar eru ofnæmisbælt fólk, svo sem líffæraþegar og HIV sjúkir.

Hula (envelope) – ytri byrði eða lag veiru. Ekki allar veirur hafa hulu.

Ensím – prótínhvati sem flýtir ákveðið efnahvarf án þess að breytast sjálfur.

Lungnablöðrubólga (pneumocystis carinii (jiroveci) pneumonia (PCP)) – sveppasýking í lungum sem er einkar algeng og lífshættuleg ónæmisbældu fólki. Til eru forvarnir fyrir PCP.

Viðtaki – sameind á yfirborði frumu sem þjónar því hlutverki að bera kennsl á eða bindast ákveðnum mótefnisvaka, mótefni, ensími eða annarri sameind.

Röðun – röð núklótíða eða kirna (basaröðun) í DNA eða RNA sameind eða röð amínósýra í prótíni. Í DNA röðun ræðst nákvæm röð níturbasana (A, T, G, C) sem eru byggingareiningar kjarnsýrunnar.

Sermisbreyting (seroconversion) – myndun mótefnis við ákveðnum mótefnisvaka. Þegar fólk myndar mótefni við HIV á sér stað sermisbreyting úr mótefnaneikvæðum í mótefnajákvæðum. Það getur tekið frá einni viku upp í nokkra mánuði eftir HIV smit fyrir veirumótefni að myndast. Þegar HIV mótefnin birtast í blóði verður mótefnamælingin jákvæð.

Meðferðarbóluefni (therapeutic vaccine) – er ónæmingarefni sem á að efla ónæmisviðbrögð við HIV smiti. Meðferðarbóluefni er annað en fyrirbyggjandi bóluefni sem á að koma í veg fyrir að sýking eða sjúkdómur leggist á manneskju.

Veirufræðilegur brestur (virologic failure) – hér er átt við það þegar veiruvarnarmeðferð reynist ófær um að minnka veirumagn eða halda því í skefjum, ýmist vegna veiklaðra lyfja, óreglulegrar lyfjatöku eða stökkbreytra veira sem myndað hafa þol við eitt eða fleiri lyf í lyfjameðferðinni.

Gegndrepinn (whole-killed) – gegndrepið alnæmisbóluefni notar HIV veirur sem eru ófærar um að afritast, yfirleitt vegna efnameðhöndlunar. Slík bóluefni hafa reynst gagnleg við aðra veirusjúkdóma og eru öruggari en veikt bólefni úr heilbrigðum veirum, að því tilskyldu að veiran hefur verið gerð alveg óvirk.

Betaprópíólakton – er sótthreinsunarefni sem vinnur á gram-jákvæðar, gram-neikvæðar og sýruþolnar bakteríur, sveppi og veirur. Er einnig notað til að búa til óvirkt bóluefni því að það eyðir kjarnsýrukjarna veira án þess að skemma veiruskurnina. Kallast líka própíólakton.

gp120 (glykóprótín 120) – er glýkóprótínið á ytra byrði HIV hulunnar. Gp120 binst CD4+ sameindum á T-hjálparfrumum við sýkingu. Hefur verið rannsakað sem tilraunabólefni við HIV vegna þess að ytri hulan er fyrsti hluti veirunnar sem mótefni „sjá“ þegar þau ber að garði.

Líkamsvessaónæmi (humoral immunity) – ónæmi sem hlýst af starfsemi mótefna í blóði og eitlavef.

Ónæmismeðferð (immune-based therapy (IBT) - immunotherapy) – meðferð sem miðar að því að móta, bæta upp eða framlengja ónæmisviðbrögð líkamans við sýkingu eða öðrum sjúkdómum. Dæmi um HIV ónæmismeðferðir á tilraunastigi eru meðal annars IL-2 og meðferðarbóluefni.

Ónæmisuppbygging (immune reconstitution) – er náttúruleg eða meðferðarleg endurvakning ónæmisstarfsemis líkama sem skaðast hefur af HIV.

Ónæmissvörun – viðbrögð líkamans við aðskotaefnum. Svörunin getur veikt eða tortímt mótefnisvökum og myndað ónæmi.

Ónæming – það ferli að skapa ónæmi með bóluefnagjöf og þannig „kenna“ ónæmiskerfinu að bera kennsl á vissa mótefnisvaka og hindra þannig sýkingu eða veikindi þegar þessir mótefnisvakar birtast á sjónarsviðinu.

Ónæmisvaki (immunogen) – efni sem vekur ónæmisviðbrögð.

Ónæmisbæling  (immunosuppression) - bæling ónæmiskerfisins og getu þess til að verjast sýkingu. Ónæmisbæling er fylgifiskur vissra sjúkdóma, svo sem alnæmis eða eitlakrabba, og getur líka verið fylgikvilli vissra krabbameinslyfja.

Ónæmisglæðir (adjuvant) – efni sem stundum er bætt við bólefni og eykur ónæmisviðbrögð.

Freunds ónæmisglæðir (incomplete Freund’s adjuvant (IFA)) – ólífrænt olíukennt efni sem veldur ósérgreindri aukingu ónæmisviðbragða við mótefnisvökum.

Innan vöðva (intramuscular (IM)) – sprautað í vöðva. Annað en þegar sprautað er til dæmis í húð (intradermal), undir húð (subcutaneous) eða í æð (intravenous).


 

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning