LÝfsstÝll

 Öflugt samhengi er milli heilsu þinnar, hvernig þú hugsar og hvernig lífi þú lifir.

 

 “Rakalaus vonleysistilfinning er versti óvinur þeirra sem lifa með HIV".

Eitt er alveg ljóst. Það er mjög mikið sem þú getur gert til að halda þér í góðu formi. Líttu þannig á, að mikilvægasti vaxtarbroddurinn, lykillinn að góðri heilsu og góðu lífi sé innra með þér sjálfum.  

Öflugt samhengi er milli heilsu þinnar, hvernig þú hugsar og hvernig lífi þú lifir. Það er vissulega mögulegt að byggja upp ónæmiskerfið, fækka fjölda HIV vírusa í líkamanum. Þetta er staðreynd, hvort sem þú notar lyf eða ekki.

Með því að taka ábyrgð á eigin heilsu og gera einfaldar breytingar á lífsstíl er hægt að forðast eða allavega seinka því að þurfa að taka lyf eða fara í meðferð gegn HIV vírus og minnka þannig aukaverkanir vegna lyfjanotkunar. Fjölda manns hefur þegar tekist þetta, vinna að því daglega og fá að launum góða  heilsu og gott líf.

Hver og einn þarf að finna sína eigin aðferð svo þetta megi takast og þá er mikilvægt að beina sjónum að því að endurvekja jafnvægið í öllum lífsþáttum; bæði líkamlega, sálrænt, tilfinningalega og andlega. Líf okkar takmarkast ekki við efnislíkamann, heldur tekur það til allra hinna fyrrnefndu þátta. Við erum lifandi verur með tilfinningar, trúarþörf, grunsemdir, rökhugsanir og innra líf og allt hefur þetta  áhrif á líðan okkar.

Ef þú hlustar með athygli á þína innri rödd getur þú tekið ákvarðanir um það hvort eitthvað af því sem þú gerir sé gott fyrir þig eða ekki. Til þess að finna persónulegt jafnvægi er mjög mikilvægt að læra að hlusta á þessa innri rödd og taka boðsendingar líkamans alvarlega.

Taktu við stjórninni – lifðu jávæðu lífi!

Að gera breytingar á ástandinu í þá veru að gera þig sterkari og hraustari er algert lykilatriði til þess að geta lifað eðlilegu og heilsusamlegu lífi með HIV.

Hvað svo?

Rifjaðu upp daginn sem þú komst frá lækninum með staðfestingu á að HIV-prófið þitt reyndist jákvætt: Veröldin stöðvast, allt virðist  í þoku, það er eins og hljóðin í kring komi langt að og alls konar hugsanir eru á fljúgandi ferð í höfðinu. Þú ert sem lamaður og tómur innan. Hvað um framtíðina? Er nokkur tilgangur í að skipuleggja lífið núna? “Vertu jákvæður” sagði læknirinn. Hvernig er það hægt?

Mörgum reynist mjög erfitt að vera greindur HIV-jákvæður. Lífið fer á hvolf og það eru margar ákvarðanir sem þarf að taka. Þetta er eins og að standa á vegamótum. En þessi vegamót geta einnig boðið upp á möguleika til betra lífs, jafnvel þó erfiðleikarnir í augnablikinu sýnist óyfirstíganlegir og allt svart framundan. Hvernig líf þitt mun verða eftirleiðis fer mikið eftir því hvernig þú velur. Ef þú velur að vera jákvæður og að trúa á framtíðina ertu þegar kominn vel á leið.

Það er tiltölulega auðvelt að snúa málum þannig að það sem virðist erfitt við fyrstu sýn getur, ef rétt er að farið, orðið þér mjög dýrmætt. Ögrunin felst í því að finna rétta lykla að góðu lífi fyrir sjálfan sig. Þessir lyklar eru fyrir hendi, en hver og einn verður að finna þá persónulega. Þeir eru ekki alltaf auðfundnir og fást ekki afgreiddir samkvæmt lyfseðli frá lækni – þú verður að leita inn á við til að finna þá. Hvað telur þú vera gott líf ? Hvað hentar þér ? Þessu svarar enginn nema þú sjálf/ur.

Viðbrögðin við jákvæðu HIV –prófi eru breytileg eftir einstaklingum. Meðan sumir láta sér standa á sama og byrja að ryðja í sig öllu sem þeir komast yfir af matföngum og vímuefnum verða aðrir heilsudellu að bráð – hætta að reykja, verða grænmetisætur á einni nóttu og fara að hlaupa og þjálfa kroppinn hlífðarlaust. Smátt og smátt komast flestir að raun um að lífsmátinn, hvort sem þú ert glaður eða dapur, úthvíldur eða stífur af streitu, hefur bein áhrif á heilsuna og þar með einnig ónæmisvarnirnar. Margt bendir til þess að sú staðreynd að sumir veikjast og aðrir eru fullir hreysti hefur mikið að gera með afstöðu einstaklingsins gagnvart lífinu og hvaða valkosti þeir kjósa að gera að sínum.

Vertu virkur

Ef þú kýst að taka virkan þátt í þínu bataferli og þar með hafa stjórn á eigin lífi kemstu að raun um að slíkt margborgar sig. Leitaðu upplýsinga hjá öðrum sem líkt er ástatt fyrir, finndu þér lesefni eða leitaðu á netinu eftir upplýsingum. Ekki gefast upp! Upplýsingarnar eru þarna – taktu þér tíma til að leita!

Láttu ekki hjá líða að útvega þér allar fáanlegar upplýsingar um þá meðferð sem þú velur, einnig um lækninn eða þann sem um meðferðina sér. Ekki gleyma að þú átt valið. Ef þú ert ósáttur við þá hjálp, stuðning og upplýsingar sem þér finnst þú þurfa, Skiptu þá um lækni eða meðferðaraðila. Það er þitt líf og þín lífsgæði sem um er að tefla, og þú ert í þínum fulla rétti til að fá þínar kröfur uppfylltar.

Síðastliðin 16-17 ár hafa margar og mikilvægar breytingar átt sér stað hvað varðar meðhöndlun á HIV. Því miður skeður það oft að læknar og meðferðaraðilar eru ekki sammála um hvað best hentar í þínu einstaka tilviki – hvort sem um er að ræða lyf, lífsstíl, mataræði eða óhefðbundna meðferð.

Engar ráðleggingar eru til um læknislyf, lífsstíl, mataræði eða óhefðbundna meðferð, sem hentar öllum og eiga alls staðar við. Eftir sem áður vegur sá þáttur þyngra sem ekki er vitað um ónæmiskerfið og hvernig það getur brugðist, heldur en það sem vitað er.

Ögrunin felst einmitt í því að þú verður að velja það sem þér finnst vera þér fyrir bestu í þínum kringumstæðum. Kannaðu vel hvaða matur það er sem þér finnst þér verða best af, hvað vekur þér hugarró og hvað nærir þig andlega. Miklu skiptir að þú veljir það sem þér fellur best að lifa við og að þú finnir þína leið, ekki aðeins til þess að lifa af, heldur að lifa!.  

Hvað getur þú gert til að styrkja ónæmisvarnirnar?

"Maturinn sem við neytum, hugsanir okkar, heimssýn okkar, og persónulegt streitustig hefur bein áhrif á starfsemi ónæmivarnarkerfisins”.                              

Gott heilsufar og gott líf er að mjög miklu leyti háð öllu því smávægilega, hversdagslega, sem við gerum fyrir okkur. Þú gerbreytir ekki lífu þínu á einum degi, einni viku eða einum mánuði. Byrjaðu með smávægilegum breytingum, sem þú veist að þú hefur gott af, t.d. góðum nætursvefni og hvíld, slökun, bættu mataræði og minnkun streitu.  

Lærðu að dekra við sjálfan þig; farðu í gott bað, farðu í bíó, láttu klippa þig, farðu í nudd, gakktu með sjó eða í fallegum garði eða skógi, taktu þér tíma til að vera einn með sjálfum þér eða innan um góða vini og gerðu annað það sem þú veist að hefur góð áhrif á þig. Góð heilsa og gott líf hefst einmitt með því að dekra svolítið við sjálfan sig.

Hér fara á eftir nokkur atriði sem nota má sem einskonar “gátlista” ef þig langar til að gera átak í þá átt að styrkja líkamlega og andlega heilsu og sálarástand, og minnka þar með áhættuna á því að veikjast.  Efnið byggist á allskonar vísbendingum og ráðleggingum frá læknum, meðferðaraðilum og öðru fagfólki á þessu sviði, ekki síst frá miklum fjölda fólks sem sjálft hefur orðið að lifa við HIV vírusinn árum saman en samt tekist að halda góðu, almennu heilsufari.

Þessum upplýsingum er ekki ætlað að vera nein prédikun og því síður tæmandi, en þær má nota sem útgangspunkt í þá átt að finna sína eigin leið að takmarkinu, sem er auðvitað betri líðan og líf sem hefur tilgang. Þær miða að því þú takir sjálfur líf þitt í þínar hendur með það fyrir augum að lifa í eins miklu jafnvægi og eins jákvætt eins og mögulegt er.

"Vertu öruggur í vali þínu og dekraðu við þig á meðan á þessu ferli til betra lífs stendur—sættu þig ekki við minna en það allra besta þegar að því kemur að velja líkamlega, geðræna og sálræna næringu".            

Streita

Stöðugt streituástand getur brotið niður ónæmiskerfið. Reyndu að haga lífi þínu á eins eðlilegan hátt og kostur er og gerðu aðeins það sem þig raunverulega langar til að gera úr lífi þínu".

Það sem ef til vil skiptir mestu máli fyrir þig er að draga úr streituáhrifum í þínu daglega lífi. Það er á almanna vitorði að streita hefur bein, skaðleg áhrif á ónæmiskerfi okkar. En við erum ekki öll lík. Mikilvægast er að hver og einn finni sitt eigið jafnvægi.  

Líkami, hugur og sál eru iðin við að gefa til kynna hvenær við þurfum á hvíld og ró að halda. Við fáum mismunandi skilaboð eða einkenni: spennu í hnakka eða öxlum, sterkar tilfinningar koma upp á yfirborðið (sorg, ótti, vonleysi, tómleiki, sársauki), höfuðverkur, síendurtekið kvef eða hálsbólga, brjóstsviði, óþægindi í maga eða önnur einkenni. Við skulum læra að hlusta á okkur sjálf - og haga okkur samkvæmt því sem líkaminn er að tjá okkur. Ef til vill þurfum við að skoða streitustigið betur, hvort sem það snýst um sambúðaraðila eða einkavin (vinkonu), starf, félagslegar skyldur, húsnæðismál, fjárhag eða annað. Nægur svefn, hvíld og líkamleg áreynsla við hæfi getur bæði komið í veg fyrir og ráðið bug á streitu.

Svefn og hvíld                                                                

Góður nætursvefn og náið samband við samstilltan og skilningsgóðan vinahóp getur hjálpað til að styrkja ónæmiskerfið.      

Líkaminn þarfnast hvíldar og svefns til að viðhalda styrk og heilsu. Í dagsins önn eru það alltof margir sem ekki unna sér nægum svefni. Svefnþörfin er einstaklingsbundin og hún getur einnig verið breytileg frá einu tímabili til annars. Almennt er gert ráð fyrir að átta klukkustunda nætursvefn sé hæfilegur.

Þeir sem vilja temja sér góðan, reglulegan nætursvefn gera rétt í því að koma sér alltaf í rúmið og fara á fætur á ákveðnum tímum. Reyndu að fá eins mikið af fersku lofti og birtu og þú getur.

Áfengi og vímuefni gefa ekki góðan svefn. Svefntöflur geta verið góð lausn um tíma þegar um alvarlegar svefntruflanir er að ræða, en geta einnig, séu þær notaðar um langt skeið, eyðilagt eðlilegan svefntakt. Margir eiga við svefntruflanir og þunglyndi að stríða yfir veturinn. Þetta getur til dæmis stafað af ónógri birtu, sem hægt er að ráða bót á með ljósböðum á haustin eða veturna, eina viku í senn. Talaðu við lækni eða meðferðaraðila sem getur gefið nánari upplýsingarum þessa ljósameðferð.

Sumu fólki hentar að sofa á daginn. Ef þú finnur til þreytu er líkaminn að tilkynna þér að hann þarfnist hvíldar eða svefns. Reyndu að sofa dálítinn tíma eða lærðu að nota slökunartækni sem gerir líkama þínum mögulegt að koma sér upp orkuforða sem hann grípur til þegar nauðsyn krefur. Aðferðir á borð við djúpslökun, öndunartækni, geta verið mikils virði fyrir okkur þegar við þörfnumst hvíldar eða rólegheita um stund.

Þjálfun og líkamleg áreynsla

Líkamleg hreyfing og áreynsla styrkir líffærin, bætir meltinguna, örvar upptöku næringarefna og súrefnis í alla vefi og styrkir ónæmiskerfið. Hver og einn getur valið sér hreyfingu og áreynslu sem hentar. Aðalatriðið er ekki hvað gert er heldur að hreyfing og áreynsla sé iðkuð reglulega og veiti ánægju í dagsins önn.  

Haltu líkamanum vel við með þjálfun eða reglulegri hreyfingu. Óþarfi er að þjálfa sig af hörku í 2-3 klukkutíma á dag.   Hollast  er að stunda rólegar æfingar 20-30 mínútur á dag,  3-4 daga í viku til þess að styrkja ónæmiskerfið. Erfiðar æfingar, stundaðar af hörku í lengri tíma geta brotið niður meira en þær byggja upp.

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað hægt er að gera til að fá holla, reglulega hreyfingu.

* Ganga hæfilega hratt, skokka eða hjóla. Gefið bílnum frí öðru hvoru, það hlífir einnig umhverfinu!  Notaðu stiga en ekki lyftu þegar tækifæri gefst.

* Synda reglulega eða stunda boltaíþróttir – squash eða tennis.

Fæða og fæðubótaefni  

Mataræði og næring getur dugað langt í að styrkja ónæmiskerfið og byggja upp mótstöðu gegn sýkingu. Með því að bæta matarvenjur eftir getu minnkar hugsanlegt streituástand og líkaminn fær nauðsynleg efni til að byggja grunn að góðri heilsu.

Eiturefni

"Allt sem þú lætur ofan í þig hefur bein áhrif á ónæmiskerfið".

Mikilvægt er að útiloka frá líkamanum eins mikið af eiturefnum og mögulegt er, eða minnka þau til muna. Sýndu líkamanum að þú elskir hann og virðir og sýndu það með því að vera alltaf fullviss um hvað það er sem þú ert að láta ofan í þig – mat og  drykk að sjálfsögðu – en einnig hverju þú andar að þér eða færð inn í gegnum húðina.

Hér fara á eftir nokkur dæmi um hvað ber að varast af þeim efnum sem geta verið  með í að brjóta niður ónæmiskerfið og sjálfvirkt jafnvægi líkamans:

* Afþreyingarfíkniefni og örvandi efni eins og þau sem eru í ríkum mæli í kaffi og tóbaki.

* Aukaefni í mat og niðursuðu- eða langtíma geymsluvöru. Sneiðið hjá öllum mat sem inniheldur E-efni.”

* Óhreint loft og vatn.

* Matvæli sem komin eru fram yfir síðustu dagsetningu, eru þráar eða byrjaðar að mygla.

* Sterkar sápur, svitavörn, förðunarvörur, krem,  o.s.frv.

* Læknislyf  (Ekki hætta að taka inn þau lyf sem læknirinn þinn hefur ávísað fyrir þig og ráðlagt þér, fyrr en hann segir til).

* Iðnaðarvörur eins og t.d. málningu, leysiefni, sterk þvottaefni o.s.frv.

* Sýkingar og sníkjudýr framleiða eiturefni sem geta veikt ónæmiskerfið til muna. Reglulegar læknisskoðanir skipta miklu þegar losna á við “óvelkomna gesti”.

Hugarorka

"Veikindi skapa okkur oft tækifæri til þess að taka lífið til endurskoðunar og reyna að meta hvort við séum enn á réttri leið að þeim markmiðum, sem við höfum ásett okkur að ná. Ef til vill er tími kominn til að breyta aðeins um, rétta kúrsinn, endurnýja stefnumið og láta draumana rætast.

Það er mikilvægt að brjótast öðru hvoru, meðvitað, út út því geðræna og líkamlega fangelsi sem HIV-greining getur auðveldlega komið okkur í.

Reyndu frekar að leiða hugann að því hvaða möguleikar standa þér nú til boða. Hugarorku má beita til þess að lagfæra þær breytingar sem eru að verða í líkamanum, eins og til dæmis á öndun, hjartslætti og  hitastigi,  og því, hvernig ónæmiskerfið starfar.

Jákvæð afstaða til lífsins er alger nauðsyn til þess að geta haldið góðri heilsu. Tilfinningar á borð við ótta, reiði og vonleysi geta með tímanum orðið til þess að veikja til muna ónæmiskerfið. Það er ótal margt sem hægt er að gera til þess að rækta með sér jákvæða afstöðu gagnvart lífinu og þar með styrkja sig andlega og líkamlega.

* Helgaðu þig augnablikinu, lifðu með, og lifðu með innsæi. Njóttu þess sem lífið býður, hér og nú!

* Hlustaðu á líkama þinn. Öll einkenni, sem þú verður var við, eru skilaboð um það hvað líkaminn vill eða vill ekki.

* Vertu virkur í öllu sem þú gerir þér til góðs. Það er aldrei of seint að byrja.

* Ráðgjafarþjónusta getur verið mjög gagnleg. Leitaðu hjálpar þar sem hún er í boði.

* Mörgum finnst mikilvægt að hafa gott samband við aðra sem líkt er ástatt um.

* Ef þú ert aflögufær, þá reyndu að hjálpa öðrum, en gleymdu því ekki að þú verður sjálfur að ganga fyrir, þú ert í fyrsta sæti!

* Kannaðu hvort meðferð hjá sálfræðingi eða eitthvað í þá átt gæti auðveldað þér að taka sjálfur völdin í þínu lífi og hjálpað þér til að lifa heill en ekki í brotum.

Öndunin                                                                               

"Náið samhengi er milli þess hvernig við öndum og hvernig ástatt er fyrir okkur til líkama og sálar”.       

Réttur andardráttur er höfuðatriði varðandi gott heilsufar. Öndunin er frábært mælitæki sem getur sýnt okkur ótvírætt hvernig ástatt er með okkur. Grun, hröð öndun sýnir okkur að við erum ekki í eins góðu sambandi við okkur sjálf og æskilegt væri. Róleg, djúp öndun gefur aftur á móti til kynna góða slökun og vellíðan.

Með því að einbeita sér að önduninni náum við sambandi við okkur sjálf og geturm lært að stjórna bæði innra ferli líkamsstarfseminnar og þess sem skeður í kringum okkur. Hér á eftir koma nokkrar tillögur að einföldum öndunaræfingu sem gefa góða slökun, hreinsun, ró og hvíld fyrir líkama, sál og sinni.

”Taktu þér hlé í eina mínútu þegar þú ert spenntur, eða gerðu þessa æfingu þrisvar, fjórum sinnum á dag:  Sestu niður og andaðu. 10 sinnum inn og 10 sinnum út. Er nokkur sem ekki getur gefið sér tíma til þess ? Þetta er slakandi, styrkjandi og hreinsandi.

Engin útgjöld eru nauðsynleg og engin þörf á kennslu. Þú þarft eingöngu að læra hvernig á að anda djúpt og hægt. Þá slakar á líkamanum, losnar um spennu og hugurinn róast. Öndunin er grundvallaratriði og æfingarnar má gera hvar sem er og hvenær sem er”!  

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning