Verkir

 verkir

 

Verkir, einkum langvinnir (krónískir) verkir eru oft vangreindir og vanmeðhöndlaðir hjá HIV smituðum. Reyndar er talið að aðeins 15 af hundraði HIV jákvæðra fái fullnægjandi verkjameðhöndlun. Hér er alvarlegt vandamál á ferðinni því að sársauki dregur verulega úr lífsgæðum.

Verkir HIV jákvæðra stafa oft af því að veiran ræðst á taugaenda í handleggjum og fótleggjum. Þetta veldur brunatilfinningu, doða og stingjum í útlimum (fingrum og tám) sem kallast úttaugatruflun (peripheral neuropathy eða distal symmetrical polyneuropathy (DPSN))  og getur verið svo óþægileg að sjúklingar veigra sér oft við að ganga og sinna daglegum störfum. Sum HIV lyf geta valdið sársaukafullum taugaverkjum.

Til eru fjölmörg góð verkjalyf td. magnýl og asperín. Kódeinlyf eru helstu verkjalyfin þegar um mikla verki er að ræða en læknar eru stundum tregir til að ávísa þeim vegna þess að þau eru ávanabindandi. Líkurnar á að sjúklingur ánetjist kódeinlyfjum eru hverfandi. Þrátt fyrir það gaf nýleg rannsókn í Kaliforníu til kynna að áhyggjur lækna af lyfjafíkn kæmi stundum í veg fyrir nægilegri verkjameðferð sjúklinga og ylli því jafnvel að þeir neituðu sjúklingum alfarið um kódeinlyf.
 
Bandaríska lyfjaeftirlitið (DEA) hefur umsjón með notkun deyfilyfja þar í landi (en kódeinlyf flokkast sem deyfilyf) og notkun þeirra bæði í læknisfræðilegun tilgangi og ólöglegum. Stundum eru skilin óskýr  milli notkunar þeirra sem kvalastillandi efna og fíkniefna. Læknar geta verið óvissir um hvort sjúklingur sé fíkill eða ekki og því fá sumir ekki rétta verkjameðferð vegna hræðslu lækna við að gefa virkum fíkli deyfilyf.

Jafnvel þótt sjúklingur sé fíkill eða óvirkur fíkniefnaneytandi gæti hann átt við mikla verki að glíma og þurft verkjameðhöndlun. Í slíkum tilfellum ætti læknir að meðhöndla verkina en setja mjög skýrar skorður við notkun deyfilyfja í meðferðinni. Það gæti verið gott að vísa sjúklingnum til verkjasérfræðings. Ef sjúklingur misnotar verkjalyf með því að ofnota þau eða taka eiturlyf og áfengi samhliða ættu viðurlögin að vera skýr. Hann yrði settur á önnur verkjalyf, sem eru ekki kódeinlyf, og settur í vímuefnameðferð. Dugi það ekki mætti hóta að vísa honum úr verkjameðferð.

Ýmis önnur vandkvæði geta fylgt því að verkjastilla HIV smitaða þar eð sum HIV lyf trufla verkun deyfilyfja. Sé sú raunin gæti læknir þurft að auka skammtastærð verkjalyfsins. Það skiptir miklu máli að læknirinn viti nákvæmlega hvaða lyf sjúklingurinn er að taka (bæði lyfseðilsskyld og ólyfseðilsskyld, fíkniefni og jurtalyf) til að hann geti metið hvernig þau orka hvort á annað og lagað skammtastæðir í samræmi við það.

Það er best að vera heiðarlegur við lækninn. Fyrsta skrefið er að segja honum hvort þú hafir einhverja verki. Vertu einnig heiðarlegur um vímuefnanotkun. Ef þú ert óvirkur fíkill skaltu ræða við lækninn um hvernig megi koma í veg fyrir að verkjalyfjanotkunin verði þér að falli. Þú getur líka sagt stuðningsfulltrúa þínum eða meðferðarfélögum frá fyrirhugaðri verkjalyfanotkun þinni til að fá stuðning þeirra. Ef þú heldur að læknirinn sé ekki að verkjameðhöndla þig rétt af ótta við misnotkun skaltu ræða áhyggjur þínar við hann og biðja um deyfilyfja meðferð undir ströngu eftirliti og með stuðningi viðeigandi aðila.

Verkir hjá HIV smituðum geta stafað af sjúkdómnum sjálfum, HIV lyfjunum eða alls óskildum ástæðum. En verkirnir eru raunverulegir og sjúklingarnir þjást ef læknar verkjastilla þá ekki rétt. Ef sjúklingurinn er virkur fíkill, á sér fíkniefnasögu eða er í fíkniefnameðferð þarf að meta verkjastöðuna og meðhöndla fagmannlega.

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning