Tannheilsa og HIV

Léleg tannheilsa HIV smitaðra á Íslandi helst í hendur við slæmt aðgengi margra landsmanna að góðri tannlæknaþjónustu. 

Munnheilsa og lífsgæði

Sjúkdómar og kvillar, sem valda skemmdum í munnholi og andliti, geta komið mönnum úr jafnvægi og rýrt sjálfsálitið. Áhrif munnheilsu og munnkvilla á lífsgæði er frekar nýr rannsóknarvettvangur sem fæst við starfrænar, sálfræðilegar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar munnkvilla. Rannsóknir hafa einblínt á fáeina þætti: tannmissi, höfuð- og andlitsgalla, munn- og andlitsverki, og munnkrabba.

Áhrif munnheilsu á lífsgæði manna er samofin flóknum félagslegum venjum, menningarlegum gildum, viðhorfum og siðvenjum. Það er löng hefð fyrir því að meta manngerð eftir lögun andlits og höfuðs. Þótt menningarhættir séu ólíkir í mörgu ríkir sú samkvæmni að mönnum lærist snemma að dæma aðra eftir andlitsfegurð eða andlitslýti. Fólk, sem er dæmt ófrítt, er talið búa yfir skapgerðargöllum, greindarskorti og siðferðisbresti.

Áhrif munnkvilla á lífsgæðin


Tannmissir

Fólk, sem misst hefur margar tennur, býr við skert lífsgæði. Það verður ekki aðeins að sætta sig við lakara fæðuval vegna tyggingarvandamála, sem getur leitt til næringarvandamála sökum fábreytnis, heldur skammast margt sín og er mjög meðvitað um sjálft sig. Fyrir vikið hefur það hamlandi áhrif á félagslífið og tjáskiptin.

Höfuð- og andlitsgallar

Klofavörs- eða holgómabörn eiga erfitt með að borða, anda og tala. Þau eiga líka í erfiðleikum með að aðlagast félagslega en það bitnar á lærdómsgetu þeirra og hegðun. Í heimi nútímans eru menn enn iðnir við að „dæma bókina eftir kápunni“ en það á stóran þátt í þeim sálrænu og félagslegu erfiðleikum sem fólk með höfuð- og andlitsgalla þarf að kljást við.

Munn- og andlitsverkir

Á höfði og andliti er fjöldi taugaenda og svæðið því næmt fyrir sársauka. Það kemur því ekki á óvart að munn- og andlitsverkir rýra verulega lífsgæðin, einkum viðvarandi verkir þar sem orsakir eru ókunnar og erfitt er að hemja sársaukann. Þar má nefna kjálkaliðskvilla, brenndartaugspínu og andlitsristil sem geta truflað mikilvæga starfsemi, svo sem tyggingu, kyngingu og svefn; raskað heimilisstörf eða vinnu; og valdið félagslegri einangrun og depurð.

Munnkrabbi

Skurðaðgerðir vegna munnkrabbameins geta valdið varanlegri afmyndun og hamlað getu manna til að tala og matast. Batahorfur munnkrabbasjúklinga eru lélegar (aðeins 52% er á lífi eftir 5 ár) og því kemur ekki á óvart að þunglyndi er útbreitt meðal þessa hóps.

Munnheilsa og HIV

Menn gerðu sér snemma grein fyrir alvarleika munnheilsuvandamála þegar alnæmisfaraldurinn hófst og gera enn. Munnkvillar svo sem þruska, vörtur og tannholdssjúkdómar finnast hjá 30 til 80 af hundraði HIV- og alnæmissmitaðra í heiminum.

Munnkvillar eru ekki endilega meðal fyrstu einkenna HIV smits en eru oft merki um að sjúkdómurinn sé að festa sig í sessi. Því er bráðnauðsynlegt að bæði fólk í áhættuhópum og HIV smitaðir geti fengið læknishjálp. En því miður er aðstoðin oft ekki fyrir hendi, ekki nýtt eða hvort tveggja; ástæður geta verið fjármagnsskortur og áhugaleysi yfirvalda, landfræðileg einangrun hins smitaða eða vandamálin sem blasa við honum svo yfirþyrmandi að munnheilsan bliknar í samanburði.

Fólk, sem veit ekki að það er HIV smitað og fær munnkvilla en hefur ekki aðgang að tannlækni, missir af tækifæri til að fá HIV skimun, ráðgjöf, prófun og umönnum. Þessi atburðarrás miðast auðvitað við aðgang að tannlækni sem þekkir áhættuþætti HIV og getur boðið upp á HIV skimun. Reglulegt eftirlit með munnheilsu þeirra HIV smituðu, sem þegar fá umönnun, skiptir ekki síður máli vegna þess hve nátengd hún er hollri næringu. Þótt HAART meðferðin (hávirk veiruvarnarmeðferð) dragi úr líkum á munnkvillum þá getur hún haft aðra fylgikvilla í för með sér og bætir ekki upp fyrir slæmt aðgengi að læknum.

HIV einkenni í munni

HIV munnkvillar flokkast sem sveppa-, veiru- og bakteríusmit; æxlismyndun; og önnur mein svo sem munnkirtilssjúkdómar og átusár. Næsti hluti fjallar um algengustu munnmeinin.

Sveppasýkingar


Munnsveppasýkingar af ættinni Candida eru algengustu sveppasýkingarnar meðal HIV smitaðra.

Þessar þrjár eru algengastar:

Pseudomembranous candidiasis (PC), öðru nafni þruska eða munnskóf. Lýsir sér sem rjómalitaðir eða gulleitir blettir á tungu eða munnholi sem skafa má af en skilja eftir sig rauð, hrá eða blæðandi svæði. Þrátt fyrir tilkomu hvítukljúfstálma og HAART þá er þruska enn algengasta einkenni HIV smits í munni. Væg eða miðlungstilfelli má meðhöndla með sveppakremum, svo sem  nystatin eða clotrimazole, en erfiðari tilfelli með lyfjagjöf, svo sem fluconazole. Meðferðin þarf að standa yfir í minnst 2 vikur til að árangur náist.

Erythematous candidiasis (EC), eða svepparoðaþroti, lýsir sér sem rautt, slétt sár, oft á tungu, gómfillu eða framgómi. Sjúklingar kvarta oft yfir sviðatilfinningu. EC er algeng sveppasýking en oft illa greind. Sveppakrem eru gjarnan notuð gegn henni.

Angular (candidal) cheilitis, lýsir sér sem sprungur í munnvikum. Ef sýkingin er ekki meðhöndluð getur hún varað lengi. Sveppakrem er borið í munnvikin 4 sinnum á dag í 2 vikur.

Veirusýkingar

Munnvörtur stafa af þekjuæxlaveirunni (human papilloma virus) og geta verið með blómkálslögun, tindótt eða upphækkaðar með flötu yfirborði. Þær eru yfirleitt fjarlægðar í aðgerð með skurðhnífi, brenndar af með rafskaut eða leysigeisla. Þá er hægt að bera veiruvarnarefni (podophyllin resin) á vörturnar. Þrátt fyrir meðhöndlun eru miklar líkur á að munnvörtur geri vart við sig á ný.

Vísindamenn greina frá því að mjög mikil aukning hefur orðið á tíðni munnvartna með tilkomu HAART meðferðarinnar. Ástæður þessa eru óljósar. Ein tilgátan er sú að HAART meðferðin efli almennt ónæmiskerfi manna en virknin sé ófullkomin þannig að sjúkdómsvaldandi örverur eigi hugsanlega greiða leið í líkamann.

Herpes simplex veiran, tegund 1, er nokkuð algeng og birtist sem áblástur á vör. Hún getur líka birst í munninum sem vessubóla er springur og myndar aumt sár. Munnsárin gróa yfirleitt af sjálfu sér en veiruvarnarlyf, svo sem acyclovir eða valacyclovir, geta flýtt fyrir bata eftir útbrot.

Oral hairy leucoplakia (OHL) eða þykkildisblettur í munnslímshúð, stafar af Epstein-Barr veirunni. Þetta er ein algengasta munnsýkingin í HIV smituðum og lýsir sér sem hvítir, lóðréttir, hrukkublettir á hliðum tungunnar. Yfirleitt er óþarfi að meðhöndla OHL en ef sýkingin veldur erfiðleikum við mötun eða tjáskipti eða er sýnilega ljót, er hún meðhöndluð. Þá er acyclovir notað eða veiruvarnarefni (podophyllin resin) borið á; algengt er að sýkingin taki sig upp ef meðferð er hætt.

Herpes zoster (ristill) er endurvakning hlaupabóluveirunnar (varicellazoster). Vessablöðrur myndast í munnslímhúð sem springa og verða að sárum. Meðferðin felst í stórum skammtagjöfum af acyclovir eða famciclovir.

Sýking af völdum cýtómegalóveirunnar (CMV) er tækifærissinnuð herpesveirusýking hjá HIV smituðum. Birtist sem stórt, aumt sár eða fleiður hvar sem er í munninum. Taka þarf vefjasýni til að staðfesta orsökina og meðferðin er acyclovir veiruvarnarlyf í munni. Ef CMV finnst í munni gefur það til kynna að veiran sé víðar í líkamanum. Þá þarf að meðhöndla allan kroppinn með ganciclovir í munni eða æð eða foscarnet í æð.

Bakteríusýkingar

Necrotizing ulcerative periodontitis (NUP), drepmyndun í tannslíðrum, og necrotizing ulcerative gingivitis (NUG), drepmyndun í tannholdi, eru hvort tveggja bólgusjúkdómar í gómum. Tilvist NUP er merki um alvarlega ónæmisbælingu; tannslíðursdrepið er mjög kvalafullt, veldur blæðingum í gómum og eyðileggur tannhold og bein á skömmum tíma og svo tannmissi í framhaldi af því. Fólk með NUP kvartar undan djúpum sársauka í kjálkum. Meðferðin felst í því að láta hreinsa tannholdi fagmannlega og nota klórhexídín munnskol. Beita þarf fúkkalyfjum í slæmum tilfellum. Þegar um NUG er að ræða skemmist tannhold og mjúkvefir í munni. Það veldur vægum sársauka og stundum bæðingum. Meðferðin er sú sama og fyrir NUP.

Linear gingival erythema (LGE) eða línulegur tannholdsroðaþrot, lýsir sér sem rautt band á mótum tannholds og tanna. Veldur stundum blæðingu. Meðferð við LGE felur í sér fagmannlega hreinsun tanngarðs og munnskol með klórhexídíni.

Æxlismyndun

Kaposi’s sarcoma (KS), kaposi sarkmein, er enn þá algengasta, illkynjaða bandvefsæxlið sem finnst í munni HIV smitaðra. Tilfellum hefur þó fækkað allverulega með tilkomu HAART meðferðarinnar. Munnsár, sem geta verið upphækkuð eða flöt og allt frá rauð og upp í fjólublá á lit, eru gjarnan fyrstu ummerkin um KS. KS sarkmein finnast oftast í efra gómi en má líka sjá á tanngómum, tungu og í koki. Þegar meinsemdin stækkar getur hún valdið truflun við tyggingu, tal og kyngingu. Meðferðin felst í að sprauta efnum, svo sem vínblastín súlfat, í meinið eða skera það burt. Ef KS sarkmein finnast annars staðar í líkamanum þarf að beita lyfja- eða efnameðferð.

Non-Hodgkin’s lymphoma (NHL), er illkynjað eitlafrumuæxli. Það birtist sem stór, blæðandi fyrirferð í efra gómi eða tannholdi. Staðfesta þarf greininguna með vefsýni. Senda þarf sjúklinginn til æxlasérfræðings.

Önnur mein

Munnkirtlamein greinast oftast sem vangakirtlabólga; xerostomia eða munnþurrkur er líka til staðar. Munnkirtlamein geta skotið upp kollinum hvenær sem er hjá HIV veikum, og oft sem aukaverkun við lyfjagjöf. Tíðni munnkirtilsmeina hefur aukist með tilkomu HAART; það gæti stafað af einhverri ónæmisenduruppbyggingar heilkenni.

Munnþurrkur er algengur hjá HIV smituðum og á sér ýmsar orsakir. Eins og nefnt var að framan geta munnkirtilsbólgur dregið úr munnvatnsmyndun. Munnþurrkur getur líka verið hliðarverkun af HAART lyfjum eða þunglyndislyfjum. Munnvatnsskortur er bæði óþægilegur og varasamur þar eð hann getur valdið skemmdum á tannholdi og tönnum, auk annarra vandamála. Draga má úr munnþurrki með því að sjúga sykurlausar bolsíur eða tyggja sykurlaust tyggjó. Hægt er að fá gervimunnvatn á lyfseðli en það getur dregið úr óþægindunum.

Átusár eru lítil hringlaga sár sem myndast í mjúkvef í munni (t.d. innan á kinnum, meðfram tungu eða í hálsi). Yfirleitt þekkjast þær á rauðum bólguhring og gulgrárri himnu; sársauki getur aukist við að borða og drekka. Munnátusár gróa á 7 til 14 dögum. Þau eru nokkuð algeng hjá landsmönnum almennt en hjá HIV smituðum geta átsárin orðið stærri og sársaukafyllri og verið lengur að gróa. Meðferð felst í að nota sterakrem, svo sem dexamethasone elixir. Í slæmum tifellum getur þurft að gefa sterasprautur (t.d. prednisone).

Við átusár, sem gróa ekki, hefur tilraunaefninu þalídómíð verið beitt. Rannsóknir benda til að notkun þalídómíðs gefi góða raun við meðferð alvarlegra átusára. En sá böggull fylgir skammrifi að aukaverkanir eru nokkrar t.d. þreyta og útlægir taugaverkir (sársaukafullur doði og stingir í höndum og fótum). Þalídómíð veldur líka alvarlegum fæðingargöllum í fóstrum og því verða læknar að vara barnshafandi konum og konum á barnseignaraldri við alvarlegum fylgikvillum lyfsins.

Áhrif HAART á HIV einkenni í munnholi

Með tilkomu HAART hafa munnkvillaeinkenni HIV smitaðra breyst. Dregið hefur verulega úr OHL og KS einnig. En munnkirtlameinum meðal HIV smitaðra hefur hins vegar fjölgað verulega og munnvörtutilfelli eru mun algengari en áður. Þótt lýðfræðileg einkenni HIV smitaðra hafi breyst með tímanum þá hefur hin snögga, snarminnkaða veirubyrði og ónæmisstyrking fruma, sem HAART hefur áorkað, líklega valdið þessum breytingum á munnsjúkdómsmynstrinu. Munnsjúkdómsmynstur HIV veikra kann að halda áfram að breytast vegna ólíks aðgengis að meðhöndlun; vandkvæða við lyfjagjöf, þar með talið fylgikvilla; og aukinnar tíðni lyfþolinna HIV stofna meðal HIV smitaðra.

Það getur verið flóknara og erfiðara að meðhöndla munnkvilla í HIV sjúklingum en meðal landsmanna almennt og oft þurfa bæði tannlæknar og læknar að koma að málum.

Munnheilsa og lífsgæði HIV smitaðra

Þótt HAART og önnur veiruvarnarlyf hafi dregið úr sjúkdóms- og dánartíðni HIV smitaðra eru munnholskvillar enn algengir og geta haft áhrif á lífsgæði og sjúkdómsframvindu sjúklingsins. Fyrir HIV smitaða eru máltíðir ekki bara hvers dags viðburður heldur snar þáttur í heilsufarsáætlun þeirra. Óþægindi eða sársauki í munni getur gert þeim erfitt um vik með að borða, dregið úr næringarinntöku og torveldað þeim að taka þátt í nauðsynlegri athöfn. Það skiptir því miklu máli fyrir alla HIV sjúklinga að fara reglulega til tannlæknis til að hreinsa tennur og láta meta munnheilsu sína, burst séð frá því hvort veikin hafi framkallað munnkvilla af einhverju tagi.

Athugasemd: Léleg tannheilsa HIV smitaðra á Íslandi helst í hendur við slæmt aðgengi margra landsmanna að góðri tannlæknaþjónustu. 

Tannlæknir á LHS word

Alvarlegar afleiðingar fæðingargalla, sjúkdóma og slysa
Sjúkratryggingar Íslands

REGLUGERÐ

um (2.) breytingu á reglugerð nr. 698/2010 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar.

 

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning