TŠkifŠrissřkingar

Tækifærissýkingar 
 
 

Tækifærissýkingar og alnæmistengd krabbamein

Þegar HIV sýking ágerist veldur hún alvarlegum skemmdum á ónæmiskerfinu. Fyrir vikið geta viss krabbamein litið dagsins ljós og hættulitlar sýkingar magnast og valdið alvarlegum veikindum. Slíkar sýkingar kallast tækifærissýkingar þar eð þær herja á fólk með bælt ónæmiskerfi en ekki heilbrigða einstaklinga þótt þeir gangi með sýkilinn í sér.

Tækifærissýkingar valda sem stendur flestum dauðsföllum meðal alnæmissjúklinga. Flestir sem látast úr alnæmi deyja ekki af völdum veirunnar sjálfrar. Þeir látast af tækifærissýkingum. Oft smitast fólk af slíkum sýklum löngu áður en það fær HIV. Heilbrigt ónæmiskerfi heldur sýklunum í skefjum og engin einkenni eru sýnileg. Þegar HIV veiran hefur skaddað ónæmiskerfið nógu mikið missir það taki á þeim og þeir valda usla.

HIV smitaðir geta tekið fúkkalyf til að halda tækifærissýklum í skefjum. Dæmi um algengan tækifærissýkil er lungnabólgusníkillinn (Pneumocystis jiroveci (PCP)). Flestir hafa þessa örveru í sér án þess að veikjast. HIV jákvæður einstaklingur getur hins vegar þurft að taka fúkkalyf til að koma í veg fyrir að veikjast af völdum hans.

Hvers vegna skiptir máli að greinast snemma?

Það skiptir sköpum að greina fyrstu einkenni tækifærissýkinga og alnæmistengdra krabbameina áður en þau ná að grafa um sig í ýmsum líffærum líkamans ss. lungum og heila. Því fyrr sem læknir greinir og meðhöndlar kvillan þeim mun fyrr nær maður fullum bata. Þess vegna þarf að fylgjast með einkennum og greina lækni frá þeim. Bókaðu skoðun hjá lækni á minnst 3ja mánaða fresti.

Æ fleiri rannsóknir staðfesta gagnsemi þess að hefja HIV meðferð, jafnvel þegar CD4 frumugildið mælist hátt. Að byrja snemma getur hindrað óafturkræfan skaða og dregið úr hættu á heila-, hjarta- og lifrartjóni. Það skiptir líka máli að láta mæla hjá sér CD4 gildið á 3-4 mánaða fresti. Tækifærissýkingar og alnæmistengd krabbamein eru almennt algengari hjá fólki með lægra CD4 gildi. Með því að mæla CD4 frumugildið gefst tími til að taka fyrirbyggjandi lyf og draga þannig úr hættu á tækifærissýkingum ss. af völdum lungnabólgusníkla (PCP) og berklasveppasýkla (Mycobacterium avium) og snúa sér aftur að HIV meðferðinni.

HIV og ýmsir tækifærissýklar geta skaðað slímhimnu þarmanna. Þetta getur truflað upptöku næringarefna og valdið rýrnun fitusnauðra vefja ss. vöðva. Þessi rýrnun veikir enn frekar getu líkamans til að berjast við sjúkdóma og getur verið banvæn í sjálfu sér. HIV getur skaðað miðtaugakerfið m.a. heilann.

Sumir tækifærissýklar, einkum sætumygla (cryptococcosis) og bogfrymlasótt (toxoplasmosis), geta líka valdið sjúkdómum í miðtaugakerfi. Einkennin geta verið allt frá því mjög mild (smávægilegar minnistruflanir) upp í mjög alvarleg (heilabilun eða óráð). HIV sjúkir geta fengið ýmis einkenni ónæmisbælingar en án tækifærissýkinganna, krabbameinanna, tæringarinnar eða heilabilunarinnar sem er hlutskipti alnæmissjúkra.

Því veikara sem ónæmiskerfið er þeim mun meiri er hættan á tækifærissýkingu. Vissir alvarlegir og lífshættulegir sjúkdómar HIV jákvæðra teljast marka ákveðin skil á sjúkdómsgöngunni. Fái manneskja einn þeirra telst hún komin með alnæmi, lokastig HIV.

Æ betri meðferðarúrræði:

Til að hindra verstu afleiðingar HIV smits nægir ekki aðeins að stöðva frangang veirunnar heldur þarf að lagfæra ónæmiskerfið, meðhöndla eða fyrirbyggja ýmsar tækifærissýkingar og krabbamein og snúa við þeirri líkamstæringu sem stundum er tengd við alnæmi. Árangursrík meðhöndlun HIV smits þarf oft að vera blanda af nokkrum meðferðarúrræðum. Meðhöndla má að hluta eða að fullu með lyfjum mörg alnæmistengd krabbamein og tækifærissýkingar. Besta leiðin til að fyrirbyggja tækisfærissýkingar er öflug veiruvarnarmeðferð. Ákveðin lyf eða lyfjablöndur virka best á ólíkar tækifærissýkingar. Núna er hægt að hafa hemil á lungnabólgusníklinum (PCP) sem olli meira en 60% dauðsfalla meðal alnæmissjúkra.

Lyf vinna á meirihluti tækifærissýkinga sem skjóta upp kollinum. Alnæmistengd krabbamein eru meðhöndluð með blöndu af efna- og geislameðferð. Þegar sjúkdómurinn er langt kominn verður erfiðara að meðhöndla fjölsýkingar og krabbamein og árangur minni og margslungnari vegna eiturverkana lyfja, einkum ef nokkur lyf eru notuð samtímis. Líkt og með aðra alvarlega sjúkdóma ss. krabbamein verður aukin þekking lækna og betri meðferðarúrræði til þess að lífslíkur HIV smitaðra aukast.

Algengir sjúkdómar

Tækifærissýkingar

Tækifærissýkingar orsakast af veirum, sýklum, sveppum og jafnvel sníklum. Algengar tækifærissýkingar eru:

Bakteríusýkingar

•niðurgangur af völdu sýkla (salmónellusýki (Salmonellosis), bogstafasýki (Campylobacteriosis), blóðsótt (Shigellosis))

•lungnabólga af völdum baktería

•berklar af völdum Mycobacterium avium complex (MAC)

•berklar af völdum Mycobacterium kansasii

•sárasótt og taugasárasótt (Syphilis & Neurosyphilis)

•berklar af völdum Mycobacterium tuberculosis (TB)

Meinvörp (krabbamein)

•rangvöxtur /krabbi í endaþarmi (Anal Dysplasia/Cancer)

•rangvöxtur /krabbi í leghálsi (Cervical Dysplasia/Cancer)

•Kaposi sarkmein (KS)

•eitlilæxli (Lymphoma)

Veirusýkingar

•stórfrumuveira (Cytomegalovirus (CMV))

•lifrarbólga C (Hepatitis C)

•áblásturssótt (Herpes simplex virus (munn og kynfæraherpes))

•ristill (Herpes zoster virus)

•vörtuveirur (Human papilloma virus (HPV), kynfæravörtur, rangvöxtur/krabbi í endaþarmi/leghálsi)

•frauðvörtur (Molluscum contagiosum)

•loðslímuþykkildi (Oral Hairy Leukoplakia (OHL))

•fjölheilahvítubólga af völdum JC veiru (Progressive Multifocal Leukoencephalopathy (PML))

Sveppasýkingar

•könnusveppasýking (Aspergillosis)

•hvítsveppasýking (Candidiasis – þruska, gersýkingar)

•þekjumygla (Coccidioidomycosis)

•mengisbólga af völdum sætumyglusvepps (Cryptococcal Meningitis)

•váfumygla (Histoplasmosis)

Frumdýrasýkingar

•dulsporasýki (Cryptosporidiosis)

•jafnsporasýki (Isosporiasis)

•örsporasýki (Microsporidiosis)

•lungnabólgusníkill (Pneumocystis Pneumonia (PCP))

•bogfrymlasótt (Toxoplasmosis)

Taugakvillar

•heilabilun af völdum alnæmis (AIDS Dementia Complex (ADC))

•jaðartaugakvillar (Peripheral Neuropathy)

Aðrir sjúkdómar og fylgikvillar

•blöðrumyndandi átusár (Aphthous ulcers)

•blóðflagnafæð (Thrombocytopenia)

•tæring (Wasting Syndrome)

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning