Kvartanir

 
kvartanir


Erindi til Landlæknisembættisins

Landlæknir hefur eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar, sbr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990.

Fólk hefur ýmsa möguleika til að kvarta yfir læknisþjónustu eða leita réttar síns og eru sumir þeirra bundnir í lög, einkum lög um heilbrigðisþjónustu nr.97/1990 og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Leiðirnar eru miklu fleiri en fólk gerir sér grein fyrir í fljótu bragði eins og sést á þessu yfirliti um það hvert hægt er að beina kvörtun eða kæru:

1. Beint til þess læknis sem meðhöndlaði sjúklinginn.

2. Til viðkomandi yfirlæknis.

3. Til stjórnar stofnunar eða framkvæmdastjóra.

4. Til nefndar um ágreiningsmál í heilbrigðisþjónustu.

5. Til landlæknis.

6. Til sjúklingatryggingar.

7. Til dómstóla.

Samkvæmt leiðum 4 og 5 má áfrýja máli til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og til umboðsmanns Alþingis. Læknaráð, sem starfar samkvæmt lögum frá 1942, fjallar í sumum tilvikum um mál frá heilbrigðisyfirvöldum (siðamáladeild) og dómstólum (réttarmáladeild).

Kvartanir vegna faglegrar starfsemi heilbrigðisstétta

Landlæknisembættið tekur við kvörtunum sjúklinga er varða faglega starfsemi innan heilbrigðisþjónustu. Með faglegri starfsemi er einkum átt við skoðun, rannsóknir, meðferð og/eða eftirlit af hálfu heilbrigðisstarfsmanna, brot á þagnarskyldu, vottorðagjöf, meðferð trúnaðarupplýsinga, upplýsingagjöf til sjúklings og aðgengi að sjúkraskrá.

Sjúklingur eða umboðsmaður sjúklings getur einnig beint kvörtun sinni til nefndar um ágreiningsmál.

Landlæknisembættið er sjálfstæður og óháður eftirlits- og rannsóknaraðili sem leitast við að leiða fram niðurstöðu varðandi það hvort unnið var faglega rétt í máli sjúklings af hálfu heilbrigðisstarfsmanns eða hvort einhverju hafi verið áfátt í starfi heilbrigðisstarfsmanns miðað við viðurkennda þekkingu. Ekki er því tekin afstaða til þess hvort sjúklingur fékk bestu mögulegu meðferð. Landlæknisembættið ákveður ekki hvort atvik kunni að vera bótaskylt, gagnstætt nefnd um ágreiningsmál.

Aðrar kvartanir

Kvörtunum er varða þjónustu á heilbrigðisstofnun, eins og t.d. aðgengi að heimilislækni, biðlista sjúkrahúsa eða heimahjúkrun, skal beina til yfirstjórnar viðkomandi heilbrigðisstofnunar.

Kvörtunum er varða fjárhagslegan ágreining vegna heilbrigðisþjónustu skal beina til yfirstjórnar heilbrigðisstofnana eða úrskurðar- og samstarfsnefnda fagfélaga og Neytendasamtakanna, ef um er að ræða heilbrigðisþjónustu á einkastofum sérfræðinga.

Kvörtunum er varða ákvarðanir skv. lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð nr. 117 og 118/1993 skal beina til úrskurðarnefndar almannatrygginga, Vegmúla 3, 108 Reykjavík.

Umsókn um bætur

Umsókn um bætur vegna tjóns í tengslum við meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar skal beina til Sjúklingatryggingar, Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114-116, 150 Reykjavík, ef um er að ræða tjónsatvik innan opinberrar heilbrigðisþjónustu.

Ef um er að ræða tjónsatvik sem varð á einkastofu læknis, tannlæknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna skal beina bótakröfu að tryggingafélagi viðkomandi sérfræðings.


Hvernig á að bera fram kvörtun til Landlæknisembættisins?

Kvörtun skal beina skriflega til Landlæknisembættisins (með formlegu bréfi, ekki í tölvupósti) þar sem málavöxtum er lýst nákvæmlega og kvörtunarefnið er skilgreint. Sjúklingur getur veitt aðstandanda, lögfræðingi eða öðrum umboðsmanni sínum skriflegt umboð til að fara með málið, t.d. ef hann er ekki fær um að annast málið sjálfur. Þegar um börn er að ræða geta forráðamenn sent inn kvörtun og einnig er tekið við kvörtunum frá börnum sem eru 16 ára og eldri. Mál eru að jafnaði ekki tekin til skoðunar nema tryggt sé að viðkomandi sé því samþykkur. Ef sjúklingur af einhverjum ástæðum treystir sér ekki til þess að skrifa embættinu er hægt að leita upplýsinga og aðstoðar í síma 510 1900.

Hverjir vinna úr kvörtunarmálum hjá Landlæknisembættinu?

Yfirlæknir kvartana- og kærumála er Kristján Oddsson aðstoðarlandlæknir, en auk hand taka landlæknir, og yfirhjúkrunarfræðingur við málum og vinna úr þeim. Ritari kvörtunarmála er Katrín Guðjónsdóttir læknaritari sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 510 1900.

Hvernig er unnið úr kvörtunarmálum?

Eftir að kvörtun hefur borist er kvörtunarþola (lækni/öðrum heilbrigðisstarfsmanni) sent bréf með upplýsingum um að kvörtun hafi borist og hvers eðlis hún er. Oft er afrit af kvörtunarbréfi jafnframt sent til kvörtunarþola. Óskað er eftir sjónarmiðum hans í málinu. Einnig er óskað eftir upplýsingum úr sjúkraskrá þess sem kvartaði. Þegar öll gögn liggja fyrir fara starfsmenn embættisins yfir málið.

Oft þarf að leita sérfræðiumsagna og er þá leitað til sérfræðinga sem ekki starfa með kvörtunarþola eða hafa haft með málefni sjúklings að gera. Vegna fámennis hér á landi getur þurft að leita til sérfræðinga erlendis. Þegar sérfræðiumsagnir liggja fyrir er gengið frá drögum að álitsgerð sem send er til sjúklings og kvörtunarþola. Tækifæri gefst til þess að koma að athugasemdum eða leiðréttingum áður en gengið er frá endanlegri álitsgerð Landlæknisembættisins.

Ástæða er til að taka fram að ferill kvörtunarmála getur tekið langan tíma séu málin flókin eða erfitt reynist að afla umsagna.


Hversu langur frestur er til að senda inn kvörtun?

Kvörtun skal að öllu jöfnu bera fram innan tveggja ára frá því að sjúklingur áttaði sig á misfellum varðandi meðferð sína, og í síðasta lagi innan tíu ára frá því atvikið átti sér stað.

Niðurstaða kvörtunarmála

Niðurstaða kvörtunarmála berst málsaðilum skriflega. Áréttað skal að Landlæknisembættið, gagnstætt nefnd um ágreiningsmál, ákveður ekki skaðabótaskyldu heldur gefur einungis faglegt álit á máli.

Landlæknisembættið getur veitt heilbrigðisstarfsmanni áminningu eða lagt til við heilbrigðisráðherra að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður sé sviptur leyfi sínu. Leyfissvipting er alvarleg og þungbær niðurstaða, sem ekki er beitt nema við mjög alvarleg eða endurtekin brot í starfi.

Heimild: Landlæknisembættið
Heimasíða: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
Heimasíða: Félagsmálaráðuneytisins


Stjórnsýslulög 1993 nr. 37 30. apríl


VII. kafli. Stjórnsýslukæra.

26. gr. Kæruheimild.

Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Stjórnsýslulög 1993 nr. 37 30. apríl

Umboðsmaður Alþingis
Hlutverk umboðsmanns er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal umboðsmaður gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997.

Lög nr. 85/1997 og starfsreglur umboðsmanns gera ráð fyrir því að umboðsmaður ræki hlutverk sitt með þrenns konar hætti fyrst og fremst. Í fyrsta lagi með athugun máls vegna kvörtunar frá þeim sem hlut eiga að máli. Í öðru lagi er umboðsmanni heimilt að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Í þriðja lagi getur umboðsmaður fjallað um það sem kallað er "meinbugir" á gildandi lögum, á almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða á starfsháttum í stjórnsýslu, og slík mál tekur umboðsmaður einnig upp samkvæmt eigin ákvörðun.

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning