Hormˇn og HIV

 
 Of mikil eða of lítil hormónaframleiðsla getur leitt til alls kyns sjúkdómseinkenna.

 

Hugtakið „hormón“ merkir í víðum skilningi hvers kyns efnaboða en er oftast notað um efnasambönd sem myndast í innkirtlum líkamans. Hormón gegna lykilhlutverki í samvægi líkamans (homeostasis)  og stjórnun líkamsstarfseminar – allt frá vexti og meltingu til kynstarfsemi og tímgunar. Of mikil eða of lítil hormónaframleiðsla getur leitt til alls kyns sjúkdómseinkenna. Sjúkdómar eins og HIV sem hafa áhrif á allan líkamann geta truflað eðlilega innkirtlastarfsemi og hormón geta að sama skapi haft áhrif á framrás HIV.

Þar eð hormón hafa svo víðtæk áhrif á alla líkamsstarfsemi er ekki að undra að kerfabundinn sjúkdómur eins og HIV trufli innkirtlastarfsemina og öfugt. Fyrstu rannsóknir á innkirtlaröskun í HIV smituðum áttu sér stað undir lok níunda áratugarins og í byrjun þeirrar tíundu, fyrir tilkomu hávirkra veiruvarnarmeðferða (HAART).

Krufning á fólki, sem lést úr alnæmistengdum sjúkdómum, leiddi oft í ljós að innkirtlar höfðu sýkst af völdum tækifærissýkla, svo sem stórfrumuveiru (cytomegalovirus (CMV)) og sveppabaktería (pneumocystis carinii eða mycobacterium avium).

Sum tækifærissýkingarlyf geta raskað starfsemi innkirtla. Núna er ljóst að alvarlegar truflanir verða oftar á innkirtlastarfsemi fólks með alnæmi eða HIV sjúkdómseinkenni en fólks með byrjunareinkenni HIV og væga ofnæmisbælingu.

Sumar innkirtlaraskanir tengjast alvarlegum veikindum almennt. Margir alvarlegir kerfabundnir sjúkdómar, m.a. alnæmi, trufla myndun skjaldkirtilshormóns en það kallast skjaldhófsveiki (euthyroid sick syndrome) þ.e. skjaldkirtillinn er eðlilegur en starfsemi hans hefur skerst. Í ýmsum rannsóknum hefur lækkað magn skjaldkirtilshormónsins þríjoðþýróníns (T3) tengst lækkuðu CD4 frumugildi, tækifærissýkingum og alvarlegu þyngdartapi.

Samspil innkirtlakerfis, taugakerfis og ónæmiskerfis er margslungið og ekki skilið til fulls enn. Þetta samspil er greinilegast milli undirstúku, heiladinguls og nýrnahettna sem saman stýra myndun barksterans kortisóls (hýdrókortisóns) til að mæta auknu líkamsálagi, svo sem við sýkingu, bólgu, sársauka, hræðslu eða tilfinningaálagi. Kortisól bælir niður marga þætti ónæmisviðbragðsins m.a. fjölgun eitilfruma; starfsemi náttúrulegra drápfruma, átfruma og daufkyrninga (neutrophils); og myndun vissra frumuboða (cytokines). Hátt kortisólmagn finnst í alvarlega bráðveiku og langveiku fólki og er alnæmi þar engin undantekning.

Ekki löngu eftir að HAART meðferðin varð útbreidd fóru læknar að taka eftir efnaskiptakvillum henni tengdum, svo sem kviðfitumyndun og hnakkkistilsmyndun (dorsocervical fat pad ) – og óalgenga ofmyndun kortisóls sem kallast barksteraofverkun (hyperadrenocorticism eða Cushing's syndrome). En rannsakendur komust að því að flestir einkennalausir HIV sjúklingar voru ekki með óeðlilega hátt kortisólmagn. HAART meðferðin hægir á framgangi HIV og trúlega hægir í leiðinni á losun kortisóls. Sumir rannsakendur eru hins á því að að kortisól gegni enn óþekktu hlutverki í efnaskiptasjúkdómnum fitukyrkingi (lipodystrophy syndrome) sem veldur röskun á fitudreifingu í líkamanum.

Það er oft enginn hægðarleikur að greina innkirtlavandamál í HIV sjúkum þar eð sum einkenni skarast. Þreyta og depurð geta td. stafað af lækkuðu magni skjaldkirtilshormóns, kortisóls, vaxtarhormóns eða testósteróns. Auk þess geta ýmsir innkirtlar spilað saman og orkað hver á annan í margslungnum sjúkdómum svo sem tæringu, fitukyrkingi og öðrum efnaskiptakvillum.

Alvarlegir innkirtlasjúkdómar urðu sjaldséðari með tilkomu HAART meðferðarinnar en sumir rannsakendur trúa því að vægari innkirtlakvillar séu enn algengir meðal HIV smitaðra. Þessar vægu innkirtlaraskanir geta haft mikil áhrif á lífsgæðin og það getur gagnast mörgum HIV veikum að fara í hormónapróf og fá hormónagjöf sé þess þörf.

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning