HIV og Taugakerfi­

 

 HIV og Taugakerfið

 

Taugakvillar af völdum HIV

Kvillar í jaðartaugum eru einn algengasti taugakvillinn samfara HIV sýkingu. Eftir því sem lífslíkur HIV smitaðra aukast fjölgar á heimsvísu þeim sem hafa HIV taugakvilla (HIV neuropathy). HIV veiran getur haft áhrif á útlægar skyn- og hreyfitaugar, brjóstholstaugar, höfuðtaugar eða sjálfvirka taugakerfið. HIV taugakvilli getur birst á margvíslega vegu. Hann getur komið fram sem meinsemd í mörgum skyn- og hreyfitaugum í útlimaendum og kallast þá fjöltaugakvilli (HIV polyneuropathy). Þessi taugakvilli getur stundum komið vegna eituráhrifa vissra HIV lyfja og kallast þá eiturtaugakvilli (antiretroviral toxic neuropathy). HIV veiran getur líka herjað á eina taug í einu og kallast þá eintaugarkvilli (HIV mononeuropathy) eða valdið bólgutaugakvilla sem svipar til Guillain-Barre heilkennis (GBS).

Einkenni


Einkenni HIV taugakvilla fer eftir því hvaða taugakvillagerð um er að ræða. Fólk með HIV fjöltaugakvilla getur fundið fyrir óvenjulegum tilfinningarglöpum  (paresthesia), doða og sársauka í höndum og fótum. Oft getur sársaukalaust áreiti ss. snerting framkallað sársaukaviðbrögð. Á síðari stigum sjúkdómsins geta vöðvar í fótum og höndum farið að veikjast. Hjá fólki með HIV eintaugarkvilla fara einkenni eftir því hvaða taug á í hlut. Í brjóstholstaugum getur hann td. valdið doðatilfinningu og sársauka í brjóstveggnum og í höfuðtaugum geta orðið truflanir á skyn- og hreyfitaugum í andliti. Í sjaldgæfum tilfellum getur HIV framkallað kvilla sem svipar til fjöltaugabólgu (GBS) og eru einkennin mjög lík hefðbundnu GBS.

Greining


Greining HIV taugakvilla byggir á sögu viðkomanda, læknisskoðun og stuðningsrannsóknum ss. vöðvarafritun (electromyography) þar sem taugaleiðni er mæld, húðsýnatöku til að meta ítaugun húðar og tauga- og vöðvasýnatöku í meinafræðilegum tilgangi.

Meðhöndlun

Meðhöndlun HIV taugakvilla fer eftir gerð þeirra. Til að meðhöndla hefðbundinn HIV fjöltaugakvilla þarf að ná góðum tökum á HIV sýkingunni. Til að meðhöndla eiturtaugakvilla getur þurft að hætta lyfjagjöfinni sem veldur eitruninni. Hægt er að meðhöndla taugaverki vegna HIV fjöltaugakvilla með flogalyfjum, þunglyndislyfjum eða verkjalyfjum ss. kódeini. Sjúklingar með GBS lík einkenni af völdum HIV eru meðhöndlaðir eins og aðrir GBS sjúklingar.
 

 

 

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning