Augnkvillar

Augnkvillar
 

HIV brýtur niður ónæmiskerfi líkamans og þess vegna verða allir líkamshlutar berskjaldaðir fyrir sýkingu, m.a. augað. HIV sjúkt fólk, sem er að öðru leyti við góða heilsu, fær alla jafna ekki augnkvilla sökum bælds ónæmiskerfis. Hins vegar fær um 70% sjúklinga með langtgengið alnæmi augnkvilla.

Alnæmistengdir augnkvillar vegna bælds ónæmiskerfis geta verið m.a.:

HIV sjónukvilli (HIV retinopathy)

Hann er algengastur í alnæmissjúkum. Smáblæðingar og bómullarblettir (hvítir blettir vegna æðastíflu) sjást í sjónunni – ljósnæmum taugavef sem þekur bakhlið augans að innan. Talið er að HIV veiran eigi beina sök á þessum breytingum á smáæðum sjónunnar.

CMV sjónbólga (CMV retinitis)

Öllu alvarlegri augnkvilli kemur upp hjá 20-30% alnæmissjúkra og kallast CMV sjónbólga (CMV retinitis). Þessu veldur stórfrumuveiran (cytomegalovirus (CMV)). Kvillinn kemur yfirleitt upp í fólki með alnæmi á háu stígi og mjög lágu T-frumugildi. Einkenni eru m.a. bólga í sjónu, blæðing og sjónmissir. Ef stórfrumuveiran er ekki greind og meðhöndluð getur hún valdið alvarlegu sjóntapi innan nokkurra mánaða.

HIV eða alnæmissjúkir eiga að leita strax til augnlæknis sjái þeir:

fljótandi doppur eða „köngulóarvef“;

ljósblossa;

blinda bletti eða óskýra sjón.

CMV sjónbólga er ólæknanleg en hægja má á framgang veirunnar með lyfjum.

Sjónulos (detached retina)

CMV veiran getur stundum orsakað sjónulos þegar sjónan losnar eða rifnar frá bakhlið augans. Sjónulos er háalvarlegt mál og veldur alvarlegu sjóntapi sé það ekki meðhöndlað strax. Í flestum tilfellum þarf að gera aðgerð til að festa sjónuna aftur á sinn stað.

Kaposi sarkmein

Kaposi sarkmein er sjaldgæft krabbamein sem alnæmissjúkir geta fengið. Krabbinn veldur rauðfjólubláum sárum á augnlokum eða rauðleitu meini á tárunni – slímhimnunni þunnu sem þekkur augnhvítuna. Kaposi sarkmein lítur ógnvekjandi út en skaðar yfirleitt ekki augað og má oft meðhöndla.

Flöguþekjukrabbamein (squamous cell carcinoma) í táru

Þetta er æxli í tárunni – slímhimnunni sem þekkur augnhvítuna. Rannsóknir sýna að kvillinn tengist HIV og alnæmi, of mikilli sólarbirtu og vörtuveirusmiti (human papilloma virus (HPV)).

Aukin hætta á ýmsun augnsýkingum

Nokkrar augnsýkingar eru algengari í HIV sjúkum en öðrum – sumar eru kynsjúkdómatengdar en aðrar ekki. Meðal sýkingarvalda eru herpes veiran, lekandahnettla (gonorrhea), möttulbaktería (chlamydia), bogfrymlasóttarsníkill (toxoplasosis), hvítsveppir (candida), lungnabólgusníkill (pneumocystis), örsporasveppir (microsporidia) og fleiri. Sýkingar af þessum örverum stofna sjóninni í hættu og þarf að leita augnlæknis við.

Meðferð við HIV augnkvilla fer eftir hvaða sjúkdóm er að ræða. Sjúklingar sem viðhalda ónæmiskerfinu sterku með hjálp veiruvarnarlyfja eiga síður á hættu að fá HIV augnkvilla. HIV sjúkir eiga að fara í reglubundna augnskoðun hjá augnlækni til að greina hugsanlega kvilla sem fyrst. 

 
 
 
 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning