Hva­ er HIV mˇtefnamŠling


 
Hvað er HIV mótefnamæling

 

HIV mótefnaprófið er blóðprufa sem greinir HIV smit nákvæmlega sé það rétt notað. Stundum eru gerð nokkur próf á hvert blóðsýni. Ef sýnið reynist neikvætt tilkynnir rannsóknarstofan það. Ef það reynist jákvætt ætti rannsóknarstofan að endurtaka prófið.

Ef endurtekin próf í röð reynast jákvæð ætti að gera aðgreint próf því til staðfestingar (yfirleitt Western Blot Analysis). Ef WBA-prófið reynist jákvætt lætur rannsóknarstofan vita af því. Ef manneskja fær jákvæða niðurstöðu úr HIV mótefnaprófi (er mótefnajákvæð) getur hún gengið að því vísu að hún sé smituð og geti hugsanlega smitað aðra við kynmök, með sprautunálum eða við barnseignir. Jákvætt HIV mótefnapróf bendir til HIV smits en segir ekki til um veikindastig eða hættu á tækifærissýkingum.

Án meðhöndlunar líða að meðaltali átta til ellefu ár frá smiti til alnæmis og 78 af hundraði HIV smitaðra fær alnæmi innan fimmtán ára. Sértu því HIV jákvæður ættirðu að leita hjálpar alnæmissérfræðings (Smitsjúkdómalæknis) til að fá meðhöndlun sem hægir á eða stöðvar framrás sjúkdómsins.

Hugsanlega verða gerðar frekari rannsóknir á þér og mælt fyrir: lifrarbólgu B, berklum, klamidíu, lekanda og iðrasníklum. Jákvætt mótefnapróf er streituvaldandi og hið sálræna álag því samfara  hefur valdið mörgum skaða og sársauka, samkvæmt gögnum sálfræðinga. Í sumum tilvikum hefur fólk greinst með slæmar geðraskanir, svo sem alvarlega kvíðaröskun og þunglyndi. Það er hyggilegt að ræða málin við alnæmisráðgjafa fyrir mótefnamælinguna og eftir að niðurstaðan liggur fyrir.

Til að verjast hugsanlegri mismunun ætti að gæta nafnleyndar við HIV mótefnamælingu. Aðeins er hægt að gæta nafnleyndar ef aðrir vita ekki rétt nafn þess sem sýnið er úr, heimilsfang hans eða önnur sérkenni. Þá er blóðsýnið gjarnan merkt með kóða sem auðkennir blóðsýnið án þess að gefa upp nafn sýnisgjafans. Ef þú gengst undir HIV mótefnapróf skaltu gæta þess hverjum þú greinir frá niðurstöðunni, hvort heldur hún reynist jákvæð eða neikvæð.

Þar eð HIV smitast ekki við snertingu er engin læknisfræðileg nauðsyn að tilkynna samstarfsfólki það eða vinum. Áður en þú segir lækninum þínum prófniðurstöðuna skaltu spyrja hvort það þurfi að skrá hana í læknisskýrsluna þína. Trúnaðarleki getur átt sér innan heilbrigðisgeirans, einkum á sjúkrahúsum. Ýmsir hafa aðgang að læknisskýrslunni þinni meðan þú liggur á spítala.


Sjúkrahússtarfsfólk þarf ekki að vita að þú sért HIV eða alnæmissmitaður til að geta varið sig því að hefðbundnar smitvarnir sjúkrahúsa nægja til að fyrirbyggja hvers kyns smit, óháð því hver á í hlut. Sértu beðinn um að taka þátt í alnæmiskönnun skaltu ganga úr skugga um að nafnleyndar verði gætt, skriflega ef með þarf.

HIV mótefnaprófið er ekki hlutlaus læknisrannsókn heldur hefur víðtækar afleiðingar í félagslegu og lagalegu tilliti. Ef þú ferð í mótefnamælingu gætu aðrir talið sig trú um að þú sért í áhættuhópi og mismunað þér, burt séð frá því hvort prófið reynist jákvætt eða neikvætt. Ef þú gengst undir HIV próf hjá opinberri stofnun verða niðurstöðurnar hluti af opinberum gögnum og ekki fullkomið trúnaðarmál. 

ELISA mótefnaprófið

Þetta er ódýr og nokkuð skilvirk aðferð til að mæla mótefni við HIV. Prófið byggir á ELISA aðferðinni en nafnið stendur fyrir Enzyme-Linked Immuno-Absorbent Assay (ensímtengt ónæmisgleypnipróf). Prófið byggist á litarbreytingum í sýni á sérútbúnum plastdiski. HIV prótínum er komið fyrir á diskbotninum. Smávegis af sermi (blóðvatni) er bætt út í diskinn. Ef sermið inniheldur HIV mótefni festast þau við prótínin á diskinum. Umframsermi er fjarlægt og efnum bætt við. Við þetta getur orðið litarbreyting á sýninu. Ef engin litarbreyting verður er prófið neikvætt (sermið innihélt engin HIV mótefni). Ef sýnið verður blátt er prófið jákvætt (sermið innihélt HIV mótefni). Ef liturinn er einhvers staðar þar á milli er niðurstaðan óákveðin (þ.e ekki er vitað með vissu hver hún er).


WBA prófið

Western Blot Analysis prófið (WBA) er aðferð sem var þróuð af vísindamönnum til að mæla viðurvist prótína. Hún gengur út á PAGE tækninni (polyacrylimide gel electrophoresis (fjölakrýlamíð gelrafdrætti) sem felst í að aðgreina prótín í borða eftir þyngd. Prótínborðarnir eru síðan fluttir yfir á sérstaka pappírsræmu úr nítrósellulósa. Pappinn er alveg litlaus á þessu stigi þótt prótínin séu á honum. Pappírsræmunni er því næst dýft í sermi og mótefni, sem kunna að vera í því, festast við mótefnavakana þ.e. í þessu tilfelli ákveðin HIV prótín. Umframsermi er þvegið af, efnum bætt við og svarbrúnn litur verður eftir á prótínborðunum sem inniheldu mótefni. Með öðrum orðum þeir HIV þættir sem viðkomandi hefur myndað mótefni við sjást á ræmunni. Sagt er að manneskja sé með neikvætt WBA ef engin bönd eru jákvæð (hafa breytt um lit). Víðast hvar er miðað við að manneskja sé WBA jákvæð ef þrjú eða fleiri bönd sýna litarbreytingu. Allt þar á milli flokkast sem óákveðin niðurstaða.

Blóðprufur fyrir HIV mótefnapróf eru sendar á Veirufræðideild Landspítalans:

Mótefnamælingar á mótefnum eru mjög næmar og öruggar.

Veirufræðideild Landspítalans er eina alhliða veirurannsóknastofa landsins.

Helstu viðfangsefni deildarinnar eru:

    Greiningar veirusótta
    Greining og eftirlit með útbreiðslu HIV og lifrarbólguveira.
    Eftirlit með ónæmisástandi og ónæmisaðgerðum gegn veirusjúkdómum.
    Faraldsfræðilegt eftirlit
    Ráðgjöf og fræðsla
    Þróun aðferða, vísindastarfsemi og kennsla
    Þátttaka í alþjóðlegum samtökum um veirurannsóknir og greiningar veirusjúkdóma.
    Þátttaka í evrópsku gæðastjórnunarkerfi

Veirufræðideild sjá hér...

Trúnaðar og þagnarskylda sjá hér.. 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning