Blˇ­rannsˇkn

 

Markmið HIV meðferðar er að halda veirumagni innan mælanlegra marka og CD4 gildinu háu.

 

HIV smitaðir þurfa að kljást við margt dags daglega sem getur verið erfitt að hugsa um og enn erfiðara að ræða um. Það er margt að vita um sjúkdóminn og það getur virst yfirþyrmandi. Fyrir vikið gefum við heilbrigðisstarfsfólki oft lausan tauminn þegar kemur að meðferðarvali.
 
Ef hinn veiki er hins vegar vel upplýstur um sjúkdóm sinn og grípur til forvarna dregur það úr þunglyndi, vonleysi og ótta. Það styrkir hann og bætir heilsuna og vellíðanina.

Þekking er máttur og vitneskja um sjúkdóminn getur aðeins bætt þá góðu þjónustu sem heilbrigðisstarfsmenn veita þér. Auk þess getur þekking á hinu sanna um sjúkdóminn fælt burt ranghugmyndapúkana í huga þér sem spila á ótta þinn. Læknirinn er kannski sérfræðingur í greiningu en þú ert sérfróður um líkama þinn. Ef þið vinnið ekki saman getur greining og meðferð orðið æði tyrfin og svekkjandi fyrir báða aðila.

Meðferð er teymisvinna. Ef þú situr á varamannabekknum og óskar þess að þú sért víðs fjarri, er tímabært að koma sér í leikinn með hinum liðsmönnunum. Sigurinn gæti verið undir þér kominn.
 
Rannsóknarpróf fyrir HIV jákvæða:

 
CD4/T-frumu gildi (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti): Talning CD4 fruma gefur almenna vísbendingu um heilbrigði ónæmiskerfisins og er góð mælieining ónæmisbælingar. Eðlilegt CD4 frumugildi telst vera yfir 500 frumur á rúmmillimetra (mm3) blóðs. Ef CD4 gildið er innan 200/mm3 þá greinistu með alnæmi. Hvers vegna þetta skiptir máli: Segir til um hættuna á tækifærissýkingum og styrk ónæmiskerfisins. Það gefur þér og lækni þínum nauðsynlegar upplýsingar til að geta valið bestu meðferðina við HIV sjúkdómnum.
 
CD4 hlutfall (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti):
Mælir hlutfall CD4 fruma af heildarfjölda eitilfruma (hvítkornagerð). Þessi mælieining er stöðugri en CD4 gildi til lengri tíma litið og hjá flestum er CD4 hlutfallið áreiðanlegri mælikvarði ónæmisstarfsemisins en CD4 gildið. Hvers vegna þetta skiptir máli: Þessi mæliaðferð gefur áreiðanlegri mynd og breytist síður milli blóðprufa en CD4 gildin (en þau geta breyst frá mánuði til mánaðar eða frá degi til dags).

Veirumagn (Viral Load (VL) (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti): Þetta próf mælir HIV magn í blóði. Hvers vegna þetta skiptir máli: Markmið HIV meðferðar er að halda veirumagni innan mælanlegra marka og CD4 gildinu háu. Veirumagnsmæling gefur góða vísbendingu um árangur meðferðar.

Blóðþáttamæling (Complete Blood Count (CBC) (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti): Þá er mælt hlutfall rauðkorna, hvítkorna og blóðflagna í blóðsýni. Hvers vegna þetta skiptir máli: CBC mæling er algengast blóðprufan. Greinir sýkingar, blóðleysi (afbrigðileika í rauðkornum) og fleira.

Sermiskimun (Serum Chemistry Panel) (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti):
Þetta próf gefur vísbendingar um efnaskipti líkamans. Það segir lækni hvernig nýrun og lifrin eru að starfa, mælir blóðsykursmagn, kalkmagn o.fl. Hvers vegna þetta skiptir máli: Sum HIV lyf hafa alvarlegar aukaverkanir og þetta próf hjálpar lækninum að fylgjast með áhrif lyfjanna á eðlilega líkamsstarfsemi.

Blóðfitumæling (Fasting Lipid Panel (kólersteról og tríglýseríð) (yfirleitt á 3ja-6 mánaða fresti): Þessi próf mæla heildarkólesterólmagn blóðs og veita upplýsingar um hin ýmsu fituprótín líkamans. Hvers vegna þetta skiptir máli: Sum HIV lyf geta haft áhrif á kólesterólmagn og hvernig líkaminn meltir og geymir fitu. Það getur gert fólk berskjaldaðra fyrir sjúkdómum m.a. hjartasjúkdómum.

Blóðsykurmæling (Fasting Glucose (glúkósi) (yfirleitt á 6 mánaða fresti):
Þetta próf mælir blóðsykurmagnið til að skima fyrir sykursýki á byrjunarstigi eða sykursýki. Hvers vegna þetta skiptir máli: Sum HIV lyf geta haft áhrif á blóðsykurmagnið og hugsanlega leitt til sykursýki.

Að auki eru ýmis önnur próf, sem eru framkvæmd sjaldnar, en eru ekki síður mikilvæg heilsunni,

Þau eru meðal annars:


Kynsjúkdómapróf: Prófað er fyrir sárasótt, lekanda og klamidíu. Hvers vegna þetta skiptir máli: Kynsjúkdómur greiðir fyrir HIV smiti manna í milli. Ef kynsjúkdómur er ekki meðhöndlaður getur hann haft skaðleg áhrif á ónæmiskerfið. 

Stroksýni (PAP Smear (legháls og endaþarmur): Tekin eru sýni af afbrigðilegum frumum sem geta orðið illkynja. Yfirleitt eru tekin frumustroksýni beint úr leghálsi og endaþarmi. Hvers vegna þetta skiptir máli: Afbrigðilegur frumuvöxtur er algengur í leghálsi HIV smitaðra kvenna og í endaþarmi bæði HIV jákvæðra kvenna og karla. Þessar afbrigðilegu frumur verða illkynja séu þær ekki meðhöndlaðar.

Próf fyrir lifrarbólgu A, B, og C:
Þessar blóðprufur skima fyrir gamlar og nýjar lifrarbólgusýkingar af A, B eða C stofni. Hvers vegna þetta skiptir máli: Sumir HIV sjúkir eru jafnframt sýktir af  lifrarbólgu. Prófið gerir lækninum kleift að meta hvort viðkomandi þurfi meðferð eða hvort hann geti þegið lifrarbólgu bóluefni.

Berklapróf (húðstroka):
Húðprófið kannar berklasmit. Jákvæð svörun merkir ekki að viðkomandi hafi virka berkla, heldur að það þurfi að kanna málið nánar og hugsanlega meðhöndla. Hvers vegna þetta skiptir máli: Ómeðhöndlaðir berklar geta reynst banvænir HIV sjúkum. Tímabær greining og meðhöndlun getur dregið úr hættu á alvarlegum veikindum og dregið úr hættu á að smita aðra af berklum.

Bogfrymilssóttarskimun (Toxoplasmosis Screening):
Þetta próf leitar að sníkjudýri sem getur valdið alvarlegum skemmdum á heila, augum og öðrum líffærum fólks með veiklað ónæmiskerfi. Hvers vegna þetta skiptir máli: Bogfrymilssóttin (sýking með einfrumungnum Toxoplasma gondii) getur verið banvæn tækifærissýking í HIV smituðum. Læknirinn þarf að vita ef þú hefur komist í tæri við sýkilinn, sem veldur bogfrymilssótt, eða átt á hættu að vera það. Hugsanlega ákveður hann að þú þurfir að fá fyrirbyggjandi meðferð. Ef CD4 gildið fellur niður fyrir 100/mm3 þarftu að fara í aðra skimun jafnvel þótt fyrri próf reyndust neikvæð.

D-vítamínmæling: Prófið mælir D-vítamínmagn í blóði. Hvers vegna þetta skiptir máli: D-vítamín er nauðsynlegt beinheilsunni og ýmislegt bendir til þess að HIV smitaðir þurfi meira D-vítamín en aðrir. Sumir eiga á hættu að fá beinþynningu vegna lyfja, lífernis eða hvors tveggja. D-vítamínmagn er auðmælt og auðveldlega leiðrétt.

Testósterón mæling: Prófið mælir magn karlkynshormóna (testósteróns) í blóði. Hvers vegna þetta skiptir máli: Lágt testósteróngildi getur verið fylgifiskur HIV, HIV lyfja eða hvors tveggja. Þetta hefur lítil áhrif á suma en gott er að finna út testósteróngildið við greiningu til að geta fylgst með breytingum á testósterónmagninu meðan á HIV meðferð stendur. Einkenni lágs testósterónsmagns er þreyta og skert kynhvöt. Meðhöndlað með hormónaplástrum, sprautum eða geli.

Þú ættir líka að ræða við lækninn þinn um önnur einkenni sem þú tekur eftir, svo sem syfju, þreytu, kvíða eða lystarleysi. Þetta geta verið vísbendingar um þunglyndi eða aðra kvilla sem hrjá langveikt fólk og hægt væri að glíma við í sameiningu, og má oft auðveldlega lina. Þú þarft ekki að þjást, og gott samband við lækninn þinn er stórt skref í þá átt að lifa með HIV án þess að þjást af því.

 

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning