SkottulŠkningar

 Skottulækningar


Óhefðbundin meðferð


Alþingi samþykkti vorið 2002 þingsályktunartillögu um stöðu óhefðbundinna lækninga. Tillagan gerir ráð fyrir að heilbrigðisráðherra skipi nefnd er geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og beri saman við stöðu mála á Vesturlöndum.

Ber nefndinni að kanna sérstaklega menntun, viðurkenningu náms og starfsréttindi og samstarf við þá sem stunda óhefðbundnar lækningaaðferðir og atriði er snerta skattamal. Nefndin skal einnig safna saman aðgengilegum niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum og virkni þessara aðferða og þeirri áhættu sem þeim fylgir.

Einnig á nefndin að kanna viðhorf almennigs til óhefðbundinna lækninga og hversu algengt það sé að fólk leiti til þeirra sem bjóða slíka þjónustu. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum til heilbrigðisráðherra um hvernig best sé að koma til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga hér á landi og meta hvort rétt kunni að vera að viðurkenna í auknum mæli nám í þessum greinum með veitingu starfsréttinda.

Skottulækningar

Í læknalögum frá 1988 segir m.a. að „hvers konar skottulækningar séu bannaðar hér á landi.“ Þar eru skottulækningar skilgreindar þannig að það séu skottulækningar þegar sá sem ekki hefur tilskilið leyfi samkvæmt lögunum býðst til þess að taka sjúklinga til lækninga, gerir sér lækningar að atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum og afhendir þeim lyf sem lyfsalar mega einir selja. Í lögunum segir einnig að lækni beri að tilkynna landlækni eins fljótt og við verður komið verði hann var við skottulækningar.

Haldið hefur verið á lofti ólíkum sjónarmiðum varðandi óhefðbundnar lækningar. Í því sambandi hafa stangast á sjónarmið lækna, almennings, löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Núgildandi réttarskipun varðandi leyfi til lækninga var tekin upp árið 1932. Frá þeim tíma hafa þeir einir rétt til að stunda lækningar á Íslandi og kalla sig lækna sem til þess hafa fengið leyfi ráðherra.

Sjónarmið almennings

Óhefðbundin lækningaúrræði hafa sífellt verið að verða meira áberandi á undanförnum árum og ljóst að sjúklingar reyna í auknum mæli ný meðferðarúrræði. Grasalækningar og smáskammtalækningar eru ekki nýjar á nálinni hér á landi en það á hins vegar við um nálarstungur, lið- og beinskekkjulækningar, heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og jóga, svo eitthvað sé upp talið.

Óraunhæft er að ætla sér að hindra tilkomu allra nýrra meðferðarúrræða þó þau teljist til hinna óhefðbundnu. Áhrif og ávinningur af setningu reglna um þetta efni er margvísleg og að ýmsu leyti ótvíræð. Starfsemi þessi yrði frekar sýnileg og ekki óvarlegt að fullyrða að núna séu þessar lækningar að miklu leyti stundaðar sem svört atvinnustarfsemi. Frekari grundvöllur fyrir eftirliti yfirvalda fæst með setningu reglna. Það styrkir og möguleika stjórnvalda á að skilja á milli vandaðra og óvandaðra vinnubragða og taka frekar á fúskurum sem hættulegir geta reynst almannaheill.

Haukur Valdimarsson
aðstoðarlandlæknir
Heimild: Landlæknisembættið

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning