Hva­ er ART og HAART fyrir HIV sj˙ka?Hvað er ART og HAART fyrir HIV sjúka?

 

Hvað er veiruvarnarmeðferð (ART)?

Veiruvarnarmeðferð (antiviral therapy (ART) er meðferð sem bælir niður eða stöðvar retróveiru (víxlveiru) eins og HIV veirunni sem veldur alnæmi. Retróveira eða víxlveira kallast svo af því að hún ber erfðaefni sitt á formi RNA en ekki DNA þ.a. að umritunin fer fram öfugt við það sem gengur og gerist þ.e. frá RNA yfir í DNA.

Hver er lífsferill HIV veiru?

Það eru nokkur skref í lífsferli HIV veiru.
Óbundnar veirur berast um blóðrásina.
HIV veiran festir sig við frumu.
HIV veiran tæmir sig yfir í fumuna (sýkir hana).
Erfðaefni veirunnar (RNA) breytist í DNA fyrir tilstuðlan gagnumritunarensíms (reverse transcriptase enzyme).
Samþáttaensím (integrase enzyme) fellir DNA  HIV veirunnar inn í DNA sýktu frumunnar.
Þegar sýkta fruman fjölgar sér ræsir það erfðaefni veirunnar sem myndar hráefni í nýjar HIV veirur.
Efnispakkar í nýja veiru sameinast.
Óþroskuð veiran þrýstir sér út úr sýktu frumunni í ferli sem kallast knappskot (budding).
Óþroskuð veiran losnar frá sýktu frumunni.
Nýja fruman þroskast: hvítukljúfsensím skera niður hráefnin og raða saman í starfhæfa veiru.

Hvernig virka lyfin?

Þegar HIV veiran fjölgar sér eru flest afritin stökkbreyttar: þær eru aðeins öðruvísi en frumgerðin. Sumar stökkbreyttar veirur halda áfram að fjölga sér þrátt fyrir veiruvarnarmeðferð. Ef það gerist hættir lyfið að virka. Veiran hefur myndað þol gagnvart lyfinu. Þetta getur auðveldlega gerst ef aðeins eitt lyf er notað í meðferðinni. Séu hins vegar tvö lyf notuð þarf burðug og stökkbreytt veira að leika á bæði lyfin samtímis. Og ef þrjú lyf eru notuð, einkanlega lyf sem ráðast á veiruna á mismunandi þroskastigum hennar, á stökkbreytt veira mjög erfitt með að mynda lyfjaþol gagnvart öllum lyfjunum samtímis. Það tekur miklu lengri tíma að mynda þol ef þriggjalyfjameðferð er beitt. Þess vegna er ekki mælt með staklyfsmeðferð (monotherapy) – að beita aðeins einu veiruvarnarlyfi.

Geta þessi lyf læknað alnæmi?

Veirumagnspróf mælir hve mikið af HIV veirunni finnst í blóðrásinni. Fólk með lágt veirumagn heldur heilsunni lengur. Hjá sumum er veirumagnið svo lágt að það er mælist ekki lengur. Þetta merkir þó ekki að veiran sé farin. Rannsakendur töldu áður fyrr að veiruvarnarmeðferð myndi um síðir drepa allar HIV veirur í líkamanum. Það er talið ólíklegt núna. Lyfin „lækna“ ekki alnæmi en gera alnæmissjúkum kleift að lifa mun lengur.

Hvaða lyf ætti að nota?

Öll veiruvarnarlyf hafa aukaverkanir. Sumar eru alvarlegs eðlis. Sumar lyfjablöndur fara betur í menn en aðrar og sumar virðast virka betur en aðrar. Þetta er breytilegt frá manni til manns og því þarf að velja lyfin í samráði við lækni. Veirumagnsprófum er núna beitt til að kanna verkun veiruvarnarlyfja. Lækki veirumagnið ekki eða það lækkar en hækkar svo á ný gæti verið tímabært að skipta um lyf.

Hvað er HAART?

Hávirk veiruvarnarmeðferð (highly active antiretroviral therapy (HAART)) er meðferð þar sem nokkrum lyfjum er beitt í einu til að hægja á fjölgun HIV veirunnar í líkamanum. Sambland af nokkrum veiruvarnarlyfjum er árangursríkari veirumeðferð en staklyfsmeðferð (monotherapy).

Slíkur lyfjakokkteill er núna staðalmeðferð við HIV. Sem stendur gefur hún bestu líkurnar á að hægja á fjölgun HIV veirunnar og halda ónæmiskerfinu heilbrigðu. Markmið veiruvarnarmeðferðar er að lækka veirumagn líkamans niður í að vera ómælanlegt með núverandi blóðprufum.

Nokkrar flokkar HIV lyfja eru til. Þeir skiptast í sjö ólíka hópa þ.e. í NRTI, NNRTI, NtRTI, protease inhibitors, entry inhibitors, integrase inhibitors og combination medications. HIV smitaðir eða alnæmissjúkir nota oftast lyf úr nokkrum þessara hópa. Lyfjablöndur geta komið í veg fyrir að HIV veiran myndi þol við eitt eða fleiri þessara lyfa.

Tiltækir lyfjaflokkar fyrir HIV smitaða eru meðal annars:
 
    Nucleoside reverse transcriptase inhibitors (NRTIs) - gagnumritunartálmar úr kirnisleifum
    Non-nucleoside reverse transcriptase inhibitors (NNRTIs) - gagnumritunartálmar úr öðru
    en kirnisleifum
    Nucleotide reverse transcriptase inhibitors (NtRTIs) - gagnumritunartálmar úr kirnum
    Protease inhibitors - hvítukljúfstálmar
    Entry inhibitors, m.a. fusion inhibitors – innkomutálmar m.a. samrunatálmar
    Integrase inhibitors - samþáttatálmar
    Combination medications – sammeðferðarlyf úr nokkrum flokkum.
    
Þegar HAART bregst

Meðferð getur „brugðist“ þ.e. veirumagn getur byrjað að mælast aftur í blóði. Stundum er þessi hækkun aðeins tímabundin og lítil og kallast „píp“. Þetta getur gerst ef veirumagnið er mælt meðan viðkomandi var lasin eða hefur nýlega fengið bóluefni. Slík mælipíp eru ekki ástæða til að breyta meðferð því að veirumagnið verður oft ómælanlegt á ný innan nokkurra vikna. HAART meðferðin hefur brugðist  ef veirurnagnið mælist hátt og samfellt um tíma. Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að meðferðin bregðist fólki: henni hefur ekki verið fylgt sem skyldi, aukaverkanir af lyfjunum eða þol hefur myndast gagnvart einu eða fleiru lyfi í kokkteillnum. Þá þarf að breyta um meðferð. Læknirinn lætur framkvæma arfgerðar- eða svipgerðarpróf á veirunni til að ákvarða hvaða meðferð eigi að beita næst. Sú meðferð kallast „björgunarmeðferð“ (salvage regimen).

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning