Aukaverkanir


Flestir sem taka veiruvarnarlyf fá einhverjar aukaverkanir.
  


Hvað eru aukaverkanir?


Aukaverkun kallast það sem lyf gerir þér sem þú vilt ekki að það geri. Lyf eru gefin í ákveðnum tilgangi svo sem að hafa hemil á HIV smiti. Allt annað sem lyfið gerir þér er aukaverkun.

Sumar aukaverkanir eru lítilvægar t.d. lítilsháttar höfuðverkur. Aðrar, svo sem lifrarskaði, geta verið alvarlegar og stöku sinnum banvænar. Sumar vara í fáeina daga eða vikur en aðrar geta varað meðan lyfin eru tekin eða jafnvel eftir að lyfjatöku er hætt. Sumar birtast nokkrum dögum eða vikum eftir að lyfjataka hefst, aðrar ekki fyrr en eftir margra mánaða eða ára meðferð.

Hverjir fá aukaverkanir?

Flestir sem taka veiruvarnarlyf (ARV) fá einhverjar aukaverkanir. Almenna reglan er sú að því meira sem tekið er af lyfjum þeim mun fleiri verða aukaverkanirnar. Lágvöxnu fólki er hættara við aukaverkunum en öðrum. Lyfjavinnsla sumra en hægari en annarra og eru því með hærra lyfjamagn í blóði. Þeir geta fengið fleiri aukaverkanir.

Sumar aukaverkanir versna ef lyfið er tekið á tómum maga. Aðrar aukast ef lyfja er neytt með fituríkri fæðu eða drykk, svo sem nýmjólk.

Öllum lyfjum fylgja upplýsingar um helstu aukaverkanir. Ekki telja víst að þú fáir allar aukaverkanir á listanum! Flestir sem taka veiruvarnarlyf fá aðeins vægar aukaverkanir.

Tekist á við aukaverkanir

Sitthvað má gera til að búa sig undir hugsanlegar aukaverkanir. Kynntu þér algengar aukaverkanir þeirra lyfja sem þú tekur.

Ræddu við lækninn um þær aukaverkanir sem búast má við að finna fyrir. Spurðu hvenær leita eigi læknishjálpar ef aukaverkun varir of lengi eða er orðin alvarleg. Athugaðu hvort þú getir meðhöndlað væg einkenni með heimaráðum eða ólyfseðilsskyldum lyfjum. Í sumum tilfellum geturðu fengið ávísað lyf  hjá lækninum sem hægt er að taka út ef aukaverkun ágerist.

Hafðu einhverjar vörubirgðir heima fyrir. Gættu þess að hafa eitthvað sem fer vel í maga og þér þykir gott að borða ef maginn er viðkvæmur fyrir lyfjunum. Passaðu að hafa nægan klósettpappa. Ekki hætta að taka lyfin, minnka eða sleppa gjöf án þess að hafa samráð við lækninn fyrst. Það getur valdið því að HIV veiran myndi lyfjaþol og ekki sé unnt að taka viðkomandi lyf lengur.

Áður en aukaverkanirnar knýja þig til að hætta eða minnka lyfjatöku skaltu ræða við lækninn um að breyta lyfjameðferðinni.

Hverjar eru algengustu aukaverkanirnar?

Þeir sem hefja veiruvarnarlyfjameðferð (ART) geta fundið fyrir ýmsum óþægindum, svo sem höfuðverkjum, háþrýstingi eða almennri vanlíðan. Þetta lagast yfirleit er frá líður og hverfur með tímanum.

Þreyta: HIV smitaðir finna oft fyrir þreytu, að minnsta kosti hluta tímans. Máli skiptir að greina orsök hennar og finna ráð við henni.

Blóðleysi getur valdið þreytu. Of lítill blóðrauði gerir HIV sýkingar alvarlegri. Hægt er að greina blóðleysi með hefðbundinni blóðprufu og meðhöndla það.

Meltingarvandamál: Þér getur orðið bumbult af sumum lyfjum. Þau geta valdið ógleði, uppköstum, vindgangi eða niðurgangi.

Heimaráð geta m.a. verið:
Að borða oftar og minna í einu frekar en að borða þrjár stórar máltíðir á dag.
Að borða mildan mat, ekki bragðsterkan eða kryddaðan.

Engiferöl eða engiferte getur róað magann. Einnig lyktin af ferskum sítrónum.

Stundaðu reglulega líkamsþjálfun. Ekki sleppa máltíðum eða léttast of mikið. Gættu þín á ógleðislyfjum, hvort lyðseðilsskyldum eða öðrum. Sum ganga ekki með veiruvarnarlyfjum.

Vindgang og uppþembu
má minnka með því að forðast fæðu á borð við baunir, sumt hrátt grænmeti og grænmetishýði.

Niðurgangur getur verið allt frá því að vera vægur upp í að vera alvarlegur. Segðu lækninum frá ef ræpan er viðvarandi eða alvarlegs eðlis. Drekktu nægan vökva.

Fitukyrkingur (lipodystrophy)
kallast það þegar fita fer af handleggjum, fótum og andliti og sest á kvið eða hnakka. Blóðfita og blóðsykur hækkar einnig. Þetta getur aukið hættu á hjartaáfalli eða heilablóðfalli.

Há blóðfita og blóðsykur, m.a. kólesteról, tríglýseríð og glúkósi. Eykur hættu á hjartasjúkdómum.

Húðvandamál: Sum lyf valda útbrotum. Oftast eru þau tímabundin en í einstaka tilfellum eru þau merki um alvarlega ofnæmissvörun. Ræddu við lækninn ef þú færð útbrot. Önnur húðvandamál geta verið húðþurrkur eða hárlos. Rakakrem geta orðið að liði við sum húðvandamál.

Taugakvillar (neuropathy) eru sársaukafullar og koma til af taugaskemmdum, fyrst oftast í fótum eða höndum.

Orkukornseitrun (mitochondrial toxicity) eru skemmdir sem myndast inni í frumum. Hún getur valdið taugakvillum eða nýrnaskemmdum og haft í för með sér mjólkursýra safnist fyrir í líkamanum.

Beinþynning er algeng meðal HIV smitaðra. Beinin tapa steinefnum og verða stökk. Minnkað blóðflæði getur valdið mjaðmakvillum. Gættu þess að fá nægt kalk í fæðu og með fæðubótarefnum. Álagsþjálfun s.s. göngur eða lyftingar geta hjalpað.

Útbrot eru nokkuð algeng aukaverkun hjá þeim sem byrja að taka gagnumritunartálma úr öðru en kirnisleifum (Non-Nucleoside Reverse Transcriptase Inhibitors (NNRTI)) ss. nevírapín (Viramune), efavírenz (í Sustiva/Stocrin og Atripla) og etravírín (Intelence). Útbrotin eru alla jafna skaðlaus og hverfa yfirleitt innan nokkurra vikna án meðhöndlunar.

Af gagnumritunartálmum úr umbreyttum, náttúrulegum kirnisleifum (Nucleoside Reverse Transcriptase Inhibitors (NRTI)), getur virka efnið abacavír sem finnst í lyfjunum Ziagen, Epzicom og Trizivir valdið útbrotum. Það gerist yfirleitt skömmu eftir að byrjað er að taka lyfið og getur valdið alvarlegum ofnæmisviðbrögðum hjá um 5% notenda. Ef hætt er að taka abacavír vegna ofnæmiseinkenna ætti aldrei að neyta þess aftur því að einkennin geta blossað hratt upp á ný og orðið lífshættuleg. Sem betur stendur HIV smituðum nú til boða einfalt blóðpróf sem getur metið ofnæmishættu af abacavír áður en meðferð hefst.

Sumir hvítukljúfstálmar (Protease Inhibitors (PI)) geta framkallað útbrot m.a. tipranavír (Aptivus), darunavír (Prezista) og fosamprenavír (Lexiva). Hvítukljúfstálminn atazanavír (Reyataz) og indinavír (Crixivan) geta líka haft áhrif á lifrarensímið gallrauða (bilirubin) sem veldur gulu (að öðru leyti skaðlausa gulnun húðar, nagla og augnhvítu). Þar eð gula getur verið vísbending um lifrarskaða ætti alltaf að láta lækni rannsaka málið. Dökknun (hyperpigmentation) húðar og nagla hefur sést hjá sumum sem taka inn lyfin zidovudín (finnst í Retrovír, Combivír og Trizivír) og emtricitabín (finnst í Emtriva, Truvada og Atripla) gerist oftast hjá þeldökku fólki.

Að lokum

Árið 1996 komu ný lyf með tilkomu nýs lyfjaflokks, proteasa hemla. Proteasi er annað ensím sem er nauðsynlegt til að ljúka veiru skiptingunni í sýktum frumum. Með tilkomu þessara lyfja lækkaði dánartíðni HIV smitaðra. Og fylgisýkingum fækkaði. Helsta vandamálið er vaxandi ónæmi HIV-veirunnar (human immunodeficiency virus) gegn andretroveirulyfjunum.

Aukaverkanir af lyfjunum geta verið mjög erfiðar, það er ekki vitað með vissu hvert það leiðir. Við vitum í mörgum tilvikum hvaða aukaverkanir gömlu vel þekktu læknalyfin hafa. Aukaverkanir geta komið upp í kjölfarið á langvarandi notkun bæði gamalla og nýrra læknalyfja. Mörg af lyfjunum (andretróvírus-lyf) sem notuð eru við HIV, hafa verið notuð síðustu 16-17 árin. Þar af leiðandi liggur alls ekki fyrir full vitneskja yfir mögulegar langtíma aukaverkanir.
Flestir sem taka veiruvarnarlyf fá einhverjar aukaverkanir. En ekki halda að þú fáir allar aukaverkanir sem þú fréttir af!

Aflaðu þér upplýsinga um helstu aukaverkanir og meðhöndlun þeirra. Notaðu heimaráð og önnur ráð sem geta hjálpað til að halda þeim í skefjum. Ekki draga að leita læknis ef aukaverkun dregst á langinn eða versnar.

Ekki láta aukaverkanir hindra þig í að taka lyfin!
Ekki halda að þú þurfir að þola aukaverkanir ef þú tekur veiruvarnarlyf. Ef þú ræður ekki við aukaverkanirnar, ef þær halda áfram lengur en í nokkra mánuði eða draga úr lífsgæðum þínum, ræddu málið við lækninn og fáðu önnur lyf. 

Hlekkir:

Lyfjastofnun: Vefsíða

My drugs chart
How to create your drugs chart
My drugs chart provides information on all the anti-HIV drugs currently licensed for use in Europe

Uppl á ensku: aidsmap.com

 

 

Deildarval

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskrßning